..::Labbitúr::..
Kúrði fram að hádegi í dag ;).
Eftir að vera búin að lepja ofan í sig nokkra bolla af tetley fékk ég mér labbitúr upp á dal.
Ég pjakkaði upp að brúnklukkutjörn sem var ísi lögð, ég hafði samt ekki kjark í að prufa styrk íssins enda nokkuð langt að labba rassblautur heim ef illa tækist til ;).
Eftir labbitúrinn fór ég að gramsa í bókakössunum sem pabbi og mamma sendu mér í sumar, þar kenndi ýmissa grasa.
Gömul dagbók eftir Einar afa síðan 1947, þar sá ég að hann hafði haft 70krónur á dag í laun meðan hann var að gera M/S Lív klára á Akureyri en þangað fór hann sem 1.vélstjóri.

Marz 1947.
Fimmtudagurinn 13.
Byrja að vinna við M/S Lív. Í skipið kemur ný aðalvjél 155-180 h.k Atlas Impesíal. 4.cílendra fjórgengis Dísel ljósavjél 7h.k Lister dísel 4k.v dínamó og loftþjappa.
Nýjir 2. neysluvatnsgeimar ca 1 ½ tonn
Vinna 8tímar.

Þetta þykja ekki stórar tölur í dag þegar aðalvélar skipa eru komnar upp í 11.000h.k ljósavélar hlaupa á þúsundum kw sem svo er hægt að keyra inn á skrúfuásinn ef aðalvélin dugir ekki.
En það er víst komið árið 2003 og stutt eftir af því ári ;) tíminn flýgur áfram og kannski eignast ég barnabörn einn daginn. Börn sem finna gamla dagbók eftir mig einn góðan veðurdag ;).

Þetta verður að duga ykkur í dag ;).

Bið góða karlinn á himnunum að vaka yfir ykkur í nótt, og munið eftir bænunum ykkar.

<°(())>< Hörður ><(())°>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi