..::Sull og sigsakk::..

Það er búið að vera hjakk á móti á þessu hjá okkur í síðan í nótt og dósin fer rólega yfir, en við verðum vonandi búnir að binda á vinnutíma í fyrramálið að staðartíma :).

Þegar ég druslaðist niður í borðsal í morgun til að fá mér mitt daglega morgunte mætti mér merkileg sjón, það flóði vatn(sjór) um allt gólfið í borðsalnum og ekki fært um nema á togleðursfótabúnaði. Kokkræfilinn var á fullu við að reina að vinda mesta vatnsflauminn upp en hafði ekki við því sem bættist við, svo alltaf hækkaði í. Ég spurði kokkinn hvaðan allt þetta vatn kæmi? "frá síðunni og undan innréttingunni" var svarið. Ég byrjaði á að tékka á kýraugunum í borðsalnum því þau hafa átt það til að leka ef þau eru ekki nægilega hert, en það var í fínu lagi. Með smá "comon sens" virtist líklegt að þessi vatnsaustur kæmi aftur með síðunni eftir rennu, rennu sem líklega væri stífluð við afturþil borðsalsins. Ég spyr kokkinn, ertu búin að ganga á klefana hérna bakborsmegin og tékka á því hvort leki einhverstaðar inn með kýraugunum? Sv:Njet Jæja ég tek kokkinn með mér og opna næsta klefa framan við borðsalinn, bingó!. Það þurfti ekki að leita lengra, sjórinn fossaði inn með kýrauganu og ábúandinn sat hinn rólegasti á bekknum og las í bók. Hann var búin að höggva stórt gat á plastkarminn sem er utan um kýraugað og líma plast upp á hálfan karminn til að leiða gusurnar niður í síðuna bak við klæðninguna, ég átti ekki orð og starði bara á þetta eins og naut á nývirki. Svo áttaði ég mig og stökk upp i brú og sló á stopp, kallaði vélaStrumpinn til og fékk hann til að fara með mér í að þétta lekann. Annar ábúandinn fór í að opna kýraugað meðan Strumpurinn viðaði að sér verkfærum og efni til þéttingar, við röspuðum svo mesta hrjúfleikann og riðflyksurnar af karminum niður, klipptum til tvo stóra gúmmí hlemma rifum pakkninguna úr kýrauganu og tróðum pakkþráð í stað hennar. Svo voru gúmmíhlemmarnir lagðir yfir gatið og kýraugað hert yfir, á eftir var svo hlemmurinn hertur ofan á allt saman. Þegar þessu var lokið var komið að því að reina hversu þétt viðgerðin væri svo ég hljóp upp og setti á ferð, jú þetta var þétt og nú lak ekki dropa "jybby" :). Nú voru ábúendurnir á lekastöðum settir í að ausa og þurrka upp stöðuvatnið í borðsalnum. Kokkurinn spurði hvernig ég ætlaði að refsa ábúendunum á lekastöðum fyrir heimskuna? Ekki finnst mér neinnar refsingar þörf , ég held að næg refsing fyrir þá félaga sé það orðspor sem fer af heimskulegri tilraun þeirra til að hilma yfir lekann.

Ég átta mig stundum ekki á hvað þeim gengur til, en líklega er það gamla Sovjet kerfið sem er búið að eiðileggja þetta fólk. Hræðslan við að vera dregin til ábyrgðar og látin borga fyrir skaðann er allri mannlegri skynsemi yfirsterkari, oftar en ekki verður skaðinn meiri og vandamálin verri en þau hefðu þurft að vera ef til réttra ráðstafana væri gripið strax.

Og ekki er ein báran stök hjá manni, núna síðast gafst sjálfstýringin upp :(. En einhvern vegin höfum við það af að sigsakka í land og látum þetta ekki tefja okkur eða setja út af laginu frekar en önnur áföll sem yfir okkur hafa dunið síðustu mánuði :).

Seinna fékk Kidda frænda með mér í að opna sjálfstýri gripinn og halda við innvolsið meðan ég kannaði aðstæður þar inni, það var fljótlegt að greina vandann og ekkert sem við gátum gert til að leysa hann í augnablikinu. Bilunin er ekki merkileg bara farnar tvær reimar, en vandamálið er bara hvar í veröldinni við finnum þessar reimar, þessi sjálfstýring er vel við aldur miðað við svona búnað eða 29ára gömul, ekki er víst að varahlutir liggi á lager í svona risaeðlu. Það var ekkert annað i stöðunni en að grípa upp símann og setja einn mesta og besta rafeindagúrú Íslands inn í vandamálið og gera hann að forystumanni í reimaleitinni ógurlegu :P.

En er ekki komið að andlitsvöðvateygjuæfingunum?

Lítil stelpa fór með mömmu sinni í sveitina í fyrsta skipti. Næsta dag fór hún í skólann, og þar var hún beðin um að segja frá sveitinni. -Það var fullt af dýrum, sagði stelpan, - og þau voru öll mjög spræk nema haninn. Hænurnar þurftu að bera hann a bakinu.

Þetta er ljótt sár, sagði læknirinn meðan hann bar joð á afturhluta Jónasar. - Hvernig vildi þetta slys til?. - Ja ég var nú bara í ástarleik með konunni þegar ljósakrónan hrundi niður. - Já einmitt, þú hefur samt sloppið vel, sagði læknirinn. - Já það held ég nú sagði Jónas. - Ef hún hefði dottið mínútu fyrr hefði ég fengið hana í hausinn.

Látum þetta nægja í dag.

Vona að þið hafið öll átt góða og hamingjuríka helgi.
Bið englana að vaka yfir ykkur.


<º))))><.•´¯`•. Hörður .•´¯`•.><((((º>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi