..::Það er ekki öll vitleysan eins::..
Náðum einu hali í gær í skítaveðri,það er sjálfsagt ekki hægt að búast við miklu þegar maður skakast undan veðri og vindum allan daginn eins og vitur sauður. En það gat verið verra :), eftir að brækurnar voru komnar inn í gærkvöldi, hóstuðumst við á stað vestur á bóginn mót veðri og vindum. Dollan stóð á endum stundi og hvæsti eins og útjaskaður dráttarhestur en komst ekki hratt yfir þrátt fyrir allar stunurnar. En allt tekur jú enda og vorum við búnir að berjast vestur yfir þúfuna klukkan 3 í nótt, Andvari var búin að vera að naga eitthvað upp í brælunni og við ákváðum að freista gæfunnar hjá honum, trollið var komið í botninn klukkan 3:30 og þá var byrjaði að tosa brækurnar eftir botninum. Veðrið fór smá skánandi og það var komið þokkalegasta veður upp úr 11 í morgun þegar við hysjuðum upp um okkur.

En Adam var ekki í paradís þennan daginn frekar en aðra daga þessarar Guðsvoluðu veiðiferðar, trollið var illa rifið, toppurinn var rifinn frá báðum belgjum og svo voru báðir belgir rifnir eitthvað niður eftir "shit shit shit, fucking shit" því varla þarf að minnast á að báðir pokar voru galtómir svona til að toppa hamingjuna :(.


En það þíðir víst ekkert að væla eða skæla og nú var allt sett á fullt í að rimpa draslið saman, þetta eru fínir dekkenglar hérna og þetta gekk allt eins og smurð maskína. Klukkna hálf tvö var trollið komið í botninn aftur og nú er bara að reina aftur. Slæmu fréttirnar eru þær að þó hér hafi verið einhver skeldýr í gær þá eru þau ekki hér í dag, vinur minn á Andvara gapir nú á gula aflanemana og fær lítið, og ekki svífa heilladísirnar yfir honum þennan daginn frekar en vini hans, nú er miðjublakkarfjandinn farin í klessu hjá honum. Samt er von er til að vélstjórarnir hans reddi því í kvöld. Sem sagt þetta eru ekki vandamál heldur verkefni sem þarf að leysa.

Einhver myndi segja að nú gengi allt á afturfótunum, en það máltæki er nokkuð snúið ekki satt? Ég hélt að það hafi talist til framfara þegar Homo Sapians reis upp á afturfæturna og fór að ganga á þeim, en þeim sem fann þetta máltæki upp hefur greinilega þótt það afturför, allavega ef marka má hvaða meining er yfirleitt lögð í þetta máltæki. En svo þykir það aftur á móti fínt ef einhver rís upp á afturfæturna og stendur á sýnu. Endalaust bull og engin niðurstaða.

En það þíðir víst lítið að gráta, þetta er bara svona og ekkert sem ég get gert til að breyta því, enn hefur ekki verið fundið upp veiðarfæri sem framleiðir fisk/rækju, eða fiskiskip þar sem allt gengur án vandræða frá upphafi til enda. Svo það er ekkert annað að gera en að bíða og vona að þetta lagist :), að vísu er það búið að bylja í eyrunum á manni frá áramótum að nú sé þetta að koma! En það er samt engin ástæða að trúa því ekki, það gæti verið satt :). Þetta gæti verið eins og með skipstjórann sem ætlaði að gera at í félögum sínum á síldarárunum. Það lá allur flotinn inni á Sigló og það hafði ekki sést síldarpadda svo vikum skiptir, þessi umræddi maður ákvað að hrista aðeins upp í félögum sínum og laug því að það hefði sést vaðandi síld við Kolbeinsey, fréttin barst eins og eldur í sinu um flotann og áður en langt um leið var allur flotinn lagður af stað út fjörðinn, skipstjórinn sem startaði sögunni sat einn eftir og horfði á eftir félögunum sínum, hann klóraði sér aðeins í skallanum og sagði svo "það skyldi þó aldrei vera að það væri eitthvað til í þessu!" svo sleppti kall og dreif sig af stað á eftir hinum :):):).

Og þá verður ekki fl tekið fyrir á þessum ritvelli í dag.
Bið Guð og gæfuna að vera með ykkur í lífsins basli...................

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi