..::Úrbræddur á þessu::..
Ósköp lítið að segja þennan daginn, veðrið gæti ekki verið betra glampandi sól og léttur suðvestan andvari. Veiðin ha humm, það lagast lítið og flestir lepja dauðan úr skel nema þeir sem liggja í hnerriduftinu þar er hægt að berja upp einhverjar verðlausar pöddur. Já það er ekki feitan gölt að flá sjómennskan á þessari þúfu þessa stundina, ég verð nú að segja að það læðist oftar og aftar að manni að nú sé nóg komið af þessu bulli og réttast væri að fara að reina að hasla sér völl í einhverju starfi í landi eins og venjulegt fólk. En það er ekki mikið sem er í boði fyrir uppgjafa skipstjórnarmenn, þessi réttindi eru ekki mikils metin í landi, við sitjum við sama borð og ólærður almúgamaðurinn um leið og við stígum upp á bryggjuna. En hvað sem því líður þá er þetta að komast á þann tímapunkt í mínu lífi, að komið sé að því að líta í kring um sig og sjá hvort lífið bjóði ekki upp á eitthvað betra fjölskylduvænna og öruggara starfsumhverfi en þessi útflöggunarsjómennska gerir. Ef þið eruð með einhverjar hugmyndir eða þið vitið af einhverju sniðugu sem þið teljið að henti mér á fastalandinu þá er ég tilbúin að skoða alla möguleika :). Og þetta verður innlegg mitt í dag. Bið og vona að ykkur líði öllum vel og séuð hamingjusöm :):)

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi