..::Heimtur úr Helju::..
Skrapp til Begga í morgun og var hann fljótur að rétta úr hryggnum á mér, nú snéri þetta víst allt út og suður en því var fljótreddað. á eftir var ég eins og nýhreinsaður hundur og til í hvað sem er, eða svona næstum það ;). Það er búið að vera svo heitt undanfarið að mig grunaði að nú væri orðið fært upp á Heljardalsheiði, svo að ég renndi hjólinu í gang og burraði af stað áleiðis inn Svarfaðardalinn, þegar innar dró sá ég að allur snjór var á bak og burt og sóttist ferðin upp heiðina þokkalega, en mikið hrikalega er þetta gróft, þetta er nánast eins og skáldið orðaði það “urð og grjót upp í mót” mest alla leiðina, snarbratt og grjótið mjög laust. Það er runnið burt allt fínna efnið úr veginum og eftir situr stórgrýti og hnullungar. Ekki hjálpaði mér ekki að afturdekkið er að verða búið ;). Á endanum hafði ég mig samt upp á heiðina rennsveittur móður og másandi, ég gaf mér góðan tíma til að kasta mæðinni í skúrræflinum þarna uppi og dundaði mér við að kvitta í gestabókina anda að mér fúkkalyktinni og lesa það sem hefur verið skrifað, ég var dágóða stund að reina að finna það sem ég skrifaði í fyrra eða var það í hittifyrra? Hvenær sem það var skrifað þá virðist það hafa gufað upp og nú tínt og tröllum gefið. Þegar ég kom út úr kofanum var skollin á svarta þoka svo ég lullaði ég af stað til baka, þokan sat samt bara á háheiðinni og fljótlega kom ég niður úr henni í sól og sumarylinn. Þegar heim kom veitti ekki af ærlegu baði til að skola af sér svitann eftir barninginn við brekkurnar. Seinnipartinn renndum við svo í bæinn til að sjá Shrek 2, við Guðný höfðum ekki minna gaman af henni en Einar Már, ég gef þessari teiknimynd hiklaust fimm stjörnur og mæli með að fólk fari og sjái þessa mynd, það er þess virði að eiða tíma í það. Nú er verið að taka sig til fyrir ættarmótið, svo að ég á ekki von á að það birtist neitt hér fyrr en í fyrsta lagi á sunnudagskvöld.
Ég óska því öllum góðrar helgar, og bið Guð og gæfuna að vera með ykkur..........
 
..::Fjölmiðlafrumvarp hvað::..
Eru ekki allir að verða komnir með upp í kok af þessu fjölmiðlafrumvarpi?
Mamamama skilur orðið ekki þessa vitleysu, ætlar þessu aldrei að linna?.
Ég vil opna umræðu um að þjóðin kosti þá Davíð og Halldór í ferð til Írak þar sem þeir geta lagt sitt að mörkum í því hernaðarbrölti sem þeir voru svo æstir í að styðja.
Og hana nú!


Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi