..::Göngudagur::..
Það var göngudagur í skólanum á Dalvík í dag, ég var mættur niður við skóla klukkan níu í morgun og var stefnan sett fremst fram í Svarfaðardal og ekki linnt látum fyrr en okkar hópur var komin fram að Koti. Ákveðið hafði verið að ganga frá Koti upp að Skeiðsvatni sem er um 4.5km stikuð gönguleið.
Þegar við vorum komin fram að Koti þá áttaði ég mig á því að ég hafði gleymt myndavélinni, það var akkúrat það sem ég ætlaði ekki að gleyma en svona fer aldurinn með mann ;);).
Veðrið hefði mátt vera betra en það var léttur rigningarúði og hundblautt á, samt varð maður ekki mikið var við rigninguna og sóttist ferðin ágætlega, krakkarnir voru misjafnlega ánægð með gönguna, var ansi gaman að hlusta á nöldrið í sumum upp brekkurnar, “ég ætla að fótbrjóta mig fyrir næsta göngudag!, ég ætla að liggja í rúminu með gat á hausnum á næsta göngudag!, ég ætla ekki að ganga til baka! o.s.f.v ;);)”.
En þó að þau nöldruðu örlítið yfir þessu þá gekk þetta bráðvel og það tók rétt um klukkustund að nuddast upp að vatninu, þegar þangað var komið gleymdust öll leiðindi og ekki var annað að sjá en að allir skemmtu sér hið besta.
Nokkrir höfði tekið veiðistöngina með og freistuðu gæfunnar í vatninu, því miður varð engin var og silungsstofninn í Skeiðsvatni var óbreyttur þegar við yfirgáfum svæðið.
Á vatninu voru Álftarhjón með ungana sína, ekki var hægt að sjá annað en að það hafi árað vel hjá þeim því að þau höfðu komið upp sex ungum, ég hefði haldi að það væri frekar sjaldgæft að Álftir kæmu upp svona mörgum ungum en þar sem ég þekki lítið til þessara fugla þá get ég ekkert fullyrt um það.
Það var nestisstopp við vatnið, við Einar Már mauluðum í okkur kleinur og drukkum safa, en svo var lallað af stað til baka, við vorum komin niður að Koti aftur um tólfleitið og ekki var annað að heyra en að allir hafi verið sáttir við ferðina :).
Í dag er búið að míg míg rigna og ekki hundi út sigandi, það er rétt núna um kvöldmatarleitið sem eitthvað er að stytta upp.
Annað er ekki í fréttum af mér og mínum þennan daginn....................yfir og út

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi