..::Leti leti leti, leti leti ley::..
Nuddaðist fram úr fyrir átta og skutlaði grislingnum í skólann, fór svo heim og gapti á NFS til níu. Þá fór frúin í vinnuna og ég veslingurinn einn heima, stóri grislingurinn okkar er að vinna og maður sér hana lítið þessa dagana.
Fór í gegn um rútínuverkin, búa um rúmin fara í tölvuna o.s.f.v, nennti ekki að hanga í tölvunni svo að ég fór niður í bílskúr og smíðaði eitt gluggahús, var að brasa í því fram að hádegi.

Eftir hádegi afgreiddi ég nokkur símtöl milli þess sem ég hékk í tölvunni í tilgangslausu flettiríi um hinar og þessar síður meira og minna rammvilltur í þessu blessaða neti, já það er ekki mikil kúnst að flækja sig í þessum VeraldarKóngulóarVef.

Seinnipartinn ákvað ég svo að kíkja aðeins undir mælaborðið á bílnum í leit að rofa sem ku gera fjarstartið á bílnum virkt, en við vorum að frétta það fyrir nokkrum dögum að bifreiðin væri útbúin með fjarstarti.
Og þar með kom skýring á START takkanum á fjarstýringunni, en með þessu fylgdi líka einhver lesning í vélarrúmi bifreiðarinnar þar sem tekið var fram að slökkva þyrfti á fjarræsikerfinu meðan skipt væri um olíu, þennan límmiða hafði ég ekki séð þótt við höfum átt bílinn í nokkur ár, en þessum límmiða er komið fyrir á stað blasir við þegar húddið er opnað, maður var nú ekki að pirra sig yfir svona viðvörunum hehe.
En sem sagt ég var komin hálfur undir mælaborðið í bílnum með vasaljós, það er morgunljóst að Japparnir sem settu þessa bifreið saman eru ekki mjög stórir, ég þurfti að taka mig úr báðum axlarliðum og öðrum hnjáliðnum áður en mér tókst að troða hausnum á þann stað þar sem ég hélt að rofinn væri, en engin rofi var þar, ég fann þó fagurgrænt tengi sem var ótengt og prufaði að smella því saman.
Nú var þrautin þyngri að komast undan mælaborðinu til að prufa hvor græna tengið væri málið, satt best að segja þá leit út fyrir að komið væri fyrir mér og Emil í Kattholti þegar hann festi höfuðið í súpuskálinni, ég var bara með Subaru á hausnum í stað súpuskálar. En til lukku fyrir heilsugæsluna og alla mér nákomna þá náði ég að smokra mér undan mælaborðinu. Prufa eitt og ekkert gerðist, ohoh fuck, ég neyddist til að endurtaka smokrunarferlið og aftengja þetta græna tengi aftur því litli engilinn á öxlinni á mér sagði að þetta ætti að vera aftengt.
Nú var ég komin í æfingu og þekkti leiðina, ég stytti afliðunarferlið og lét nægja að fara úr hálsliðnum sem létti mikið á allri rökhugsun hehe.
Þegar búið var að aftengja aftur þetta tengi og ég komin aftur undan mælaborðinu, þá datt mér í hug að kíkja á öryggin, ha humm þar var þá þessu umræddi takki, og stóð á off. Ég prufaði að smella honum á On, prufaði svo fjarstýringuna en það blikkuðu bara ljósin en bíllinn fór ekki í gang :(, þetta er greinilega ekki nóg að virkja takkann líklega þarf eitthva meira til að þetta verði virkt.
Fór á netið og fann þjónustuaðilann fyrir þennan búnað og hringdi þangað, en aðalrafmagnsgúrúið var ekki við svo það kom lítið út úr því samtali. Fyrirtækið er inni á Akureyri svo að það er hægur vandi að líta þar við ef maður á leið um og sjá hvort þeir geta galdrað þetta í lag.

Já þetta er nú það helsta sem bættist í ferilskrána í dag.
Ég fékk ekkert í skóinn í morgun, ekki einu sinni kartöflu, fenguð þið eitthvað?.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi