..::Vesturfararnir::..
Renndum af stað vestur í Skagafjörð rétt upp úr miðnættinu, segir svo ekki frekar af ferðum okkar fyrr en við köstum dræsunni vestan við Drangeyna á svipuðum slóðum og Grettir Ásmundarson synti svo frækilega um árið. Ja ekki hefði okkur nú veitt af hjálp frá Gretti heitnum því druslan byrjaði á að kengfestast í botni og vildi bara vera þar, á endanum hafðist hún þó upp og merkilegt nokk þá var hún heil :).
Hva!! það þíðir ekki að láta svona smámuni slá sig út af laginu svo nú var reynt að kasta gagnstæða stefnu ef dræsan rynni eitthvað betur þá leiðina, en það var sama sagan allt kengfast, það var bara eins og Grettir sjálfur væri þarna niðri og héngi í tógunum.
Á endanum urðum við að sleppa niður bb tóginu til að ná dræsunni lausri.
Þegar þarna var komið ákvað kapteinninn að segja skilið við Drangeyjarsvæðið og reyna frekar vestur af Þórðarhöfða, fyrsta kast við höfðann virtist ætla að lukkast og vel gekk að draga dræsuna saman, en á hífingunni mættu okkur ný vandamál. Þari!!, þari í bunkum á tógunum svo að það varð að lötra þessu inn í áföngum á meðan við skárum og reittum þarann af tógunum, en allt tekur enda og þetta hafðist inn fyrir rest.
Einhver sandkolahrúga í bland við þarabing sat í pokanum sem var svo útbelgdur af gúmmelaðinu að kraninn ætlaði ekki að hafa herlegheitin upp í mótökuna en einhvernvegin lukkaðist það nú samt.
Aftur var kippt smá og tekið annað kast, aftur duttum við í lukkupottinn og fengum þara, að vísu mun minna en þara samt. Nú var dagur að kvöldi komin og birtu farið að bregða, kalinn ákvað samt að taka eitt kast til, kast sem reyndist vera þetta fína hreinsikast en ekki veitti af því til að losa dræsuna við eitthvað af þaranum sem sat í eftir þaraköstin við höfðann, eftir hreinsikastið var kúrsinn settur á Hofsós þar sem afla dagsins var landað.
Á Hofsós voru tveir aðrir snuddubátar að landa, skipstjórinn á öðrum þeirra kom um borð til okkar og miðlaði okkur af reynslu sinni, það voru gagnlegar upplýsingar og í ljós kom að það var ýmislegt sem við þurftum að breyta og laga til að gera búnaðinn hentugan fyrir norðurslóðir, ákveðið var að fara í að laga það sem við gátum strax morguninn eftir.
Það verður nú að segja að við vorum frekar sneyptir eftir fyrstu viðureignina við Skagafjörðinn sem mér fannst taka illa á móti okkur, en við látum það ekki buga okkur ;).

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi