..::Fuglafár::..
Í allan dag hefur herjað á okkur skaðræðisblíða með sól og sumaryl, ekki amalegt svona rétt rúmum mánuði fyrir jól.

Annars er ekkert af viti að frétta, dallurinn og næsta nágrenni er undirlagt af fugli, ég hef sjaldan séð annað eins, en þessi grey sitja út um allt.
Togvírarnir og höfuðlínukapalinn eu meira að segja þéttsetnir af fugli á toginu, frá sjó og upp að blökkum.
Þessu fylgir náttúrulega mikið garg og læti, en verst af öllur er þó sóðaskapurinn.

Bátsmaðurinn stendur allan daginn með háþrýstidæluna og þvær burt fuglaskít, en það sér varla högg á vatni.
Og ég er ekkert að fara of mikið út þessa daga, ég tel mig nokkuð heppinn ef ég slepp við skítkast eftir stutt ferðalög utandyra, best er bara að halda sig innandyra meðan þetta gengur yfir.
Sá eini sem er virkilega ánægður með gargandi skítmaskínurnar er Vírus, hann hefur ákaflega gaman af því að fylgjast með fuglunum, ekki það að þetta fuglafár haldi fyrir honum vöku, nei nei, hann sefur sína tuttugu tíma í sólarhring og lætur ekki neitt fuglagarg raska því.

Myndir dagsins eru ef fuglunum og King Fisher þegar sólin skríður undir sjóndeildarhringinn.

Og þá er þetta komið í dag.
Bið Guðs engla að vaka yfir ykkur hvar sem þið eruð niður komin, vonandi verða þeir hljóðlátari og þrifalegri en f.........................

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi