Ekki kom góða veðrið sem við vorum að vonast eftir i dag ;(. Og það er búin að vera skítabræla í dag en kortið fyrir morgundaginn lofar betra veðri ;).
Í morgun þegar við tókum trollið þá var svo þung aldan að önnur bakstroffan í stjórnborðshleranum slitnaði í látunum, þegar draslið var komið inn þá tókum við hlerann inn til að skipta um keðju. Það var ekki þrautalaust því að dollan ólmaðist eins og sólborgari á e-töflum. Svo þegar við ætluðum að henda hleranum út aftur þá virkaði ekki spilkerfið ;) en Jón fann út úr því og korter í tvö var druslan komin í botninn aftur.
Það er eiginlega ekkert veiði veður fyrir Erlu en það verður að reyna að pjakka í þessu í von um að veðrið verði skárra þegar hífað verður.
Í dag var svo ákveðið að við yrðum í landi 31mars, því fylgdi náttúrulega bullandi pappírsvinna því að tilkynna þarf löndun mannaskipti áætlaðan afla og allt það með 10daga fyrirvara til Nufy, svo þarf aftur að hnykkja á því með fjögurra daga fyrirvara og enn og aftur sólarhring áður en farið er inn fyrir 200sml. Hvar eru umhverfissinnar þegar svona pappírssóun er leifð? Væntanlega að fylla út ættleiðingaskjöl fyrir hvali seli og hver veit hvað, til svo að selja einhverjum blábjánum í Ameríku.
Jamm þetta er mikið breitt frá því ég var hérna síðast, þá var nóg að láta vita sólarhring áður en við fórum inn fyrir 200sml, en heimurinn versnandi fer.
Biskupinn okkar sagði að þetta væri svartur dagur og er ég honum sammála, núna er byssuóði Bandaríkjaforseti búin að fá sýnu framgengt og er byrjaður að berja á Írökunum, ekki voru það góðar fréttir og núna verður sjálfsagt allt sjóð bullandi vitlaust ;( og olíuverðið upp úr öllu valdi. Það eina rétta hefði verið að setja Bush og Saddam í boxhringinn og láta þá slást þangað til annar lægi dauður, þá hefði þetta vandamál verið úr sögunni.
Farþeginn okkar er enn hjá okkur og hefur verið rólegt hjá honum í dag ;), mér skilst svo að Arnarborgin eigi að vera inni 29mars svo þetta verður stuttur túr hjá farþeganum.
Rafvirkinn er allur að koma til og að sögn félaga hans þá fór hann einn á klósettið í morgun, og kallaði ekki einu sinni skeinó á eftir ;).
Núna fer að styttast í matinn hjá mér svo ég fer að hætta þessu bulli, Kiddi er búin að fá sérsteiktar lambakótilettur í hádeginu og kvöldin síðan við fórum ;) Kiddi borðar ekki svínakjöt og þá tók kokkurinn þá ákvörðun að fóðra hann á lambakótilettum til framtíðar, ég er hræddur um að það styttist í að Kiddi hætti að borða Lambakjöt ;).
Læt þetta næga í dag.
Bið himnaföðurinn um að líta til með ykkur, og lóðsa ykkur um öngstræti lífsins.
<°((()>< Hörður ><()))°>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi