Þá er sumarið komið eftir tímatalinu og veturinn farin og kemur aldrei aftur, ekki síðasti vetur ;).
Þegar maður spólar til baka í huganum þá poppar upp minningar brot um þennan dag.
Ég fékk alltaf að taka reiðhjólið út á sumardaginn fyrsta og það voru oft erfiðir síðustu dagarnir í þeirri bið. En það var nokkuð skondið hvernig fyrsta salínuna mín á reiðhjóli var, ég tók reiðhjólið hennar Ingu Jónu dóttur Elsu og Friðgeirs heitins ófrjálsri hendi og dröslaði því upp í planið hjá Sverri, svo brölti ég upp á gripinn og renndi mér af stað, ekki var valdið á farartækinu mikið og endaði þetta ferðalag á því að við stungumst saman hjólið og ég niður bakkann fyrir ofan bílskúrinn hjá Jóhanni Klausen, hjólið var svo þungt að ég kom því ekki upp á veg aftur svo að frekari tilraunir til reiðmennsku lögðust niður og ekki man ég hvenær ég náði svo tökum á því að hjóla, það hlýtur þó að hafa verið fljótlega upp úr þessu ;).
Ég hjólaði mikið þegar ég var krakki og voru ófáar ferðir inn í land á bílaöskuhaugana, þá tók maður með sér eitthvað af verkfærum og svo skrúfaði maður það í sundur sem maður náði í sundur, einnig var vinsælt að hjóla út á öskuhauga og labba síðan út í Hólmaborg, auðvitað kom maður við á öskuhaugunum og kveikti í einhverju rusli og reyndi oftar en ekki að sprengja gamla olíubrúsa með því að kasta þeim á eldinn, nú svo var hjólað út að Sellátrum og stundum alla leið út að Helgustaðarnámu en það voru lengstu túrarnir sem ég man eftir.
Þetta er nú farið að hljóma eins og ævisaga einhvers öldungs svo að ég hætti þessu bulli um hjólið. Varðandi hjólin þá man ég alltaf hvað mér þótti nýja 20” Velamoss hjólið sem Nilli Siggi fékk einhverríman í fyrndinni alveg ógeðslaga flott, en hann er nú líklega búin að gleyma þeim grip ;).
Og yfir í aðra sálma.
Í gærkvöldi var rifið hjá okkur svo að endurbæturnar á vörpunni sem fara átti í á leiðinni suður um höf lagðist af og við frændurnir fórum í að stykkja aðra spólu í undirbyrðinu, því lauk klukkan 01.30 og þá fékk maður lúr til 05:00 þegar við skutluðum druslunni út.
Svo þegar ég mætti á stjórnpall í morgun þá var Steinríkur(flaggarinn) grátklökkur yfir ástandinu og lýsti hann því með sinni mjóu rödd að það hefði bara verið innkoma í nokkrar mínútur og ástandið væri vægast sagt hroðalegt, hann væri búin að snúa en hefði ekki fundið þessa innkomu aftur, við fengum líklega bara ekki neitt ;(. En aflanemakvikindin voru nú samt rauð hjá kalli svo að ég tók þetta væl ekki inn á mig og sagði karlanganum að slappa af og taka þessu eins og maður ;).
Skúli vinur minn á Ottó kom með í þessa suðurhafsreisu og hafði hann dregið áfram suður grynnra, það var þokkalegur afli hjá honum en rækjan mjög smá. Við hysjuðum svo drusluna upp og þá var aflinn í lagi og rækjan með skárra móti.
Já hlutirnir eru ekki alltaf eins og maður er búin að gera sér upp í huganum og oftar en ekki vöðum við í villu og svima.
Þetta er svipað og sagan um “Tjakkinn”.
Eitt sinn var Jónas og fjölskylda á ferðalagi um Vestfirði. Þau urðu fyrir því að það sprakk annað afturdekkið á bíldruslunni og þegar Jónas var búin að losa allan viðlegubúnaðinn úr skottinu og finna varadekkið þá fannst ekki “TJAKKURINN”. Djö hvað var nú til ráða? En kerlingin benti Jónasi á að það væri sveitabær þarna nálægt og bóndinn myndi örugglega lána þeim tjakk. Nei Jónas trúði því ekki. Þessir bændur eru allir að kafna úr nísku og hann vill örugglega ekki lána mér tjakk.
Þar við sat og Jónas vildi ekki fara heim að bænum. Kerling heldur áfram að nuða í Jónasi og á endanum fæst hann af stað. Á göngu sinni heim að bænum þá er hann alltaf að hugsa um að bóndinn muni ekki lána sér tjakkinn og mögnuðust þessar hugsanir upp á göngunni svo að Jónas var orðin foxillur út í bóndann.
Að lokum komst Jónas að bænum og bankaði á útihurðina. Loksins þegar bóndinn opnar hurðina þá var Jónast orðin svo tens að hann öskraði á bóndann “ÞÚ GETUR BARA ÁTT ÞINN TJAKK SJÁLFUR!”
Móralinn í þessari sögu er sá að hlutirnir eru ekki alltaf eins og við höldum að þeir séu og oftar en ekki erum við búin að gera okkur upp kolranga mynd af þeim aðstæðum sem upp kunna að koma ;).
Ef þið brosið framan í heiminn þá brosir heimurinn framan í ykkur ,) og það hefur aldrei dimmt svo mikið að ekki birti aftur, þó getur þurft að bíða eftir ljósinu eins og ég varð tilfinnanlega var við þegar ég var á rækjuveiðum norður við Svalbarða yfir háveturinn, þar skýmar ekki í desember janúar og febrúar. En fólkið á Svalbarða er ekki að gera sér rellu yfir svoleiðis smámunum, Atli Brekkan hafnarvörður í Longyearbyen talaði um að ljósið kæmi í mars eitt sinn þegar ég þurfti að skreppa inn eftir varahlutum til hans. Já fimbulfrost og myrkur viku eftir viku mánuð eftir mánuð og það bítur ekkert á þetta fólk, fólk sem hvergi annarstaðar vill vera. Svo erum við að væla yfir smá snjókomu eða slabbi ;).
En þetta er orðið gott í dag?
Bið litlu hvítu fiðruðu fylgisveina Guðs almáttugar að sáldra yfir ykkur smá skammti af hamingju og hlýju, ekki veitir okkur af í þessari grimmu veröld.
<°((()>< Hörður ><()))°>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi