Það mætti halda að sumardagurinn fyrsti væri að koma til okkar hérna á Dollunni.
Veðrið hefur leikið við hvern sinn fingur í dag og samkvæmt korti frá veðurspámanninum þá er ekkert lát á blíðunni.
Annars heyrði ég nýtt orð fyrir veðurfræðing áðan en það er “Vindlingur” passar ágætlega finnst mér, svo voru fleiri nýyrði sem ekki er hægt að birta hérna.
Við vorum að ákveða löndun í Bay Roberts á Nýfundnalandi 5mai næstkomandi og þá verður bara einn túr eftir í langþráð frí.
Ég frétti að það væri þó okkur umferð á blogginu og síðunni minni, gott ef einhver hefur gaman af því að lesa þetta bull sem frá mér kemur.
Konan mín ber þungan af því að gera ykkur kleift að lesa þetta því að hún setur þetta inn fyrir mig. Gott að eiga góða konu, og hann er enn í fullu gildi málshátturinn sem ég fékk um árið “kalt er konulausum”. Það eru sjálfsagt ekki allar konur sem gætu sætt sig við þessar útiverur og flökkueðli sem mig hrjáir.
Og beint í aðra sálma áður en maður verður of meir, veiðin í gær gekk þokkalega og virðast breytingarnar á trollinu skila okkur meiri afla en áður, við erum á réttri leið þar og vonandi verðum við ekki síðastir í röðinni í lok ársins.
Annars er ekki hægt að gera ráð fyrir okkur í baráttunni um efstu sætin vegna smæðar og aflleysis Dollunnar en við gerum okkar besta og reinum allt sem við getum til að hanga í hinum. Það eru margir dallarnir hérna svo stórir að það dregur fyrir sólu þegar maður mætir þeim, en einn góðan veðurdag verður maður kannski í hólnum á svoleiðis skútu hver veit.
Mér verður stundum hugsað til krakkanna sem voru með mér í bekk þegar ég var barn og vandræðaunglingur á Eskifirði. Hvar þetta fólk er niður komið og hvernig því hefur reitt af í lífsins ólgu sjó. Það er furðulegt að ekki skuli neitt samband hafa haldist eins og svo oft milli bekkjasystkina, sumt af þessu fólki hef ég hvorki séð né heyrt síðan við gengum út úr skólastofunni á Eskifirði í síðasta sinn, tilbúin eða ekki til að takast á við raunir lífsins. Gaman væri að fá einhverjar upplýsingar um þessa einstaklinga og jafnvel væri hægt að finna einhvern tíma til að hittast eða koma upp einhverju e-mail sambandi á milli. Eru ekki allir komnir með e-mail í dag?. Ég trúi ekki öðru en að þessar sömu hugsanir sæki einhvertímann á ykkur hin en kannski skortir okkur þor og áræði til að gera eitthvað í málinu ;). Ég held samt að við ættum að drífa í því að gera eitthvað í málinu því að einn daginn verður það orðið of seint og því miður er ekki hægt að spóla til baka.
Læt þetta nægja í dag.
Vonast til að þið hafið átt góða páska, og auðvitað bið ég Guða að líta til með ykkur hvar sem þið eruð.
<°((()>< Hörður ><()))°>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi