Sól og bongó blíða á hattkúlunni annan dag sumars, okkur til gleði og ánægju.
En rækjukvikindin mættu vera liðugri inn í trolldrusluna okkar, þó má víst ekki vanþakka það sem fæst og Steinríkur stóð sig með ágætum síðastliðna nótt.
Við erum líka nokkuð ánægðir með nýja vindlinginn(veðurfræðinginn) því að hann teiknar svo falleg veðurkort handa okkur, og í dag setti hann stórt H yfir Nufy og þúfuna, við lofum Guð fyrir nýja vindlinginn.
Í dag höldum við okkur syðst í austurkanti og hér er fámennt en góðmennt og ekki eru skipin að flækjast fyrir okkur á þessum blettinum, maður mætir Ottó mesta lagi 2svar á sólarhring, á þeim bæ er af nógum sögum af að taka enda er Skipperinn þar sigldur maður og hefur a.m róið til fiskjar frá landi Svartlingjahausanna í suðaustri.
Það er allt kolvitlaust inni í Nufy því að það var kippt af þeim öllum þorskkvótanum í annað skiptið síðan 93. Það ætlar ekki af þessu fólki að ganga, það er ekki langt síðan þorskveiðar voru leifðar aftur undan ströndum Nufy en það var samt orðið nokkuð blómlegur iðnaður í kring um þennan afla sem veiða mátti.
Núna verða ansi mörg smásjávarpláss að svefnbæjum á nýjan leik og þar fyrir liggur ekkert annað en eymd og atvinnuleysi, svei attan.
Ekki hef ég samt mikla trú á að þeim takist að byggja upp þorskstofninn aftur frekar heldur en Íslendingum, það verður bara þessu þorskum fleira á matarborði Selsins og Hvalsins. Já menn virðast seint ætla að átta sig á því að það þarf að samnýta allan lífskeðjuna til að það verði eitthvað vit í þessu, það er ekki hægt að hætta að veiða eina tegund og ætlast til að hún vaxi upp í einhverja kjörstofnstærð sem fræðingarnir í jakkafötunum eru búnir að ákveða fyrirfram. Hvenær skildi það verða að upplýsingar frá öllum hliðum málsins verði nýttar til niðurstöðu? Sjálfsagt aldrei!
Heldur pukrast hver í sínu horni og allir hafa jú sínar skoðanir. Svo er einn aðilin dregin út úr hópnum og hans speki verður að lögum hvað sem tautar og raular.
Ég held að við náum aldrei að byggja upp fiskistofnana nema við hefjum aftur hvalveiðar og stóraukum selveiðar, þessi kvikindi eru í beinni samkeppni við okkur og ef að við tökum ekki fiskinn nú þá stækka bara þessir samkeppnisaðilar þangað til að batteríið er komið í jafnvægi, í því jafnvægi er ekki gert ráð fyrir OKKUR því að við erum jú búnir að stimpla okkur út í von um að samkeppnisaðilarnir bíði eins og við.
Og þetta verða lokaorðin í dag
Vonast til að Guð og hans aðstoðarlið veiti ykkur alla þá ástúð hamingju og hlýju sem þarf til að vaða í gegn um síróp lífsins.
<°((()>< Hörður ><()))°>
Ummæli