..::Kertaveisla::..
Í morgun þegar ég opnaði glyrnurnar var þetta gaddgrindarfrost sem geisaði á Norðurlandi í gær gengið yfir og komin asahláka. Eftir morgunteið fór ég með ruslið sem gleymdist óvart i öskutunnunni hjá okkur þegar aðrir bæjarbúar voru þjónustaðir ;(. Að ruslaleiðangrinum loknum skrapp ég aðeins inn á Akureyri í smá stúss með Kalla en við stoppuðum stutt.
Þegar við komum til Dalvíkur aftur þá kom ég við uppí kirkjugarði og kippti heim útikerti sem ekki vildi loga í á laugardaginn, ég fór með kertið heim bræddi úr því mesta snjóinn og þurrkaði. Svo vætti ég aðeins kveikinn í tjöruhreinsi og svo var brunað með kertið upp í garð aftur. Það logaði núna en eitthvað hefur efnasamsetningin raskast við olíuhreinsiskveikinn því að það logaði full mikið, og ekki bætti úr skák þegar rigndi ofan í sjóðandi heitt vaxið. Hún Helga mín hefur örugglega skemmt sér konunglega yfir þessu kertabrasi mínu, en þetta var eins og með Emil í Kattholti “Þetta átti ekki að fara svona” þetta bara fór svona ;).
Ég keypti svo annað lítið kerti og setti í kertahúsið á leiðinu hjá Sævaldi og Jónu, þar fór ekkert úrskeiðis og logaði það ekki meir en lög gerðu ráð fyrir ;).

Kvöldinu eyddi ég svo í sjónvarpsgláp og rólegheit.

Hérna ætla ég að kveikja á kerti fyrir það sem ég klúðraði í dag ;)


Fatíma bænin

Ástkæri Jesús,
fyrirgef þú oss syndir vorar.
Forða oss frá logum heljar.
Leið allar sálir til himna,
sérstaklega þær sem þurfa mest á þér að halda.
Amen.


Þessa litlu bæn fann ég á fallegri síðu Maríukirkju og stalst til að nota hana, ég vona að Himnaföðurinn fyrirgefi mér það ;).

<º))))><.•´¯`•. Hörður .•´¯`•.><((((º>



Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi