14. jan 2004

..::Snjóleysi á hattinum::..

Mér að óvörum þá var blíðuveður á okkur þegar ég vaknaði í morgun. Og allur skíðasnjórinn minn horfinn.

Annars hefur þetta gengið rólega hjá okkur síðustu daga og ekkert að hafa nema handónýta smárækju með tilheyrandi vonleysi og örvæntingu. En veturinn styttist með hverjum deginum og það gerir túrinn líka svo maður getur alltaf látið sig hakka til einhvers og það þýðir lítið að væla yfir því sem maður getur ekki breytt ;).

Í rannsóknarferð minni um eldhús dollunnar áðan sá ég að kokkurinn var búin að draga enn eitt lambalærið fram og það verður væntanlega á boðstólnum í kvöld. Strákgreyið heldur að okkur þyki lambalæri svo gott að það henti okkur i öll mál, en ef heldur fram sem horfir verður maður farin að jarma þegar líður á túrinn. Er ekki sagt að maður sé það sem maður étur ;).

Einhver vandamál eru með brennarann á suðupottinum og kyndinguna, en háttvirtur yfirvéltamningarmaður heldur að vandinn liggi í eldsneytinu sem fæði umræddan búnað. Hvað kyndinguna varðar þá hefur þetta ekki komið að sök vegna þess að Jón var búin að koma upp varmaskipti sem aðalvélin hitar, og dugir það fínt til að hita dolluna.

Færeyskir kolleikar mínir eru að spá á okkur brælu í kvöld og sjálfsagt á sú spá eftir að rætast því að loftvogin hlunkast niður og vindurinn er vaknaður af lúrnum sem hann fékk sér í dag ,).

Þetta eru helstu fréttir af hattinum þennan daginn.

Vona að þið hafið öll verið Guði ykkar þóknanleg í dag og reynt að láta gott af ykkur leiða. Og endilega biðjið fyrir þeim sem minna mega sín og eiga um sárt að binda í kvöld þegar þið leggist á þvældan koddann.

<º))))><.•´¯`•. Hörður .•´¯`•.><((((º>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi