..:Andveltigeymir og fl::..
Andveltigeymir er efstur á óskalistanum hjá mér í dag, sumir kalla þetta veltitank sem er náttúrulega öfugmæli. Engu að síður er þetta komið í mjög mörg skip og báta og reynist frábærlega. Þetta er búnaður sem við félagarnir teljum að myndi breyta þessari dollu í lystisnekkju eða eitthvað nálægt því ,). Trolldruslan var hysjuð hálftóm upp í gærkvöldi og hefur legið útflött á trolldekkinu síðan, ekki er nokkurt veður til að reyna veiðar og ekki fyrirsjáanlegt að það gefi sig veður þennan daginn. En það verður að taka þessu af karlmennsku, berja sér og brjóst og tauta "þetta hlýtur að lagast!" þótt farið sé að gæta örlitlu vonleysi hjá sumum íbúum dollunnar.

Síðastliðin nótt var erilsöm í kojunni, en ekki var nokkur leið að skorða sig svo vel færi og iðaði maður út um allt ósofinn og ergilegur, klukkan sjö í morgun datt svo einhverjum spekúlantinum í hug að slökkva á loftræstingunni svo að ólíft varð í klefakytrunni minni fyrir hita og loftleysi. Þetta fyllti mælinn og brölti ég úrillur niður á vélarist og startaði loftræstingunni aftur, á bakaleiðinni stoppaði ég við í borðsalnum og tilkynnti salnum að það veri illa séð ef títtumræddur búnaður yrði stöðvaður aftur ,). Svo paufaðist ég upp í brú og virti fyrir mér ósléttuna áður en ég fór niður í kytruna mína aftur og skreið í kojuna , aftur gat ég andaði að mér fersku sjávarloftinu sem blés beint úr loftræstitúðunni í kojuna mína. Innst inni hafði ég svolítið gaman af því að ég skyldi láta þessa vitleysu fara í taugarnar á mér.

Í gærkvöldi var opin fundur í brúnni um lífeyrismál.
Niðurstaða fundarins var sú að í sumum þessum sjóða væri ekkert annað í gangi en fjárhættuspil og við stjórnvölinn sætu spilafíklar hinir verstu. Það er ótrúlegt hvernig sumir þessir sjóðir hafa farið með þá fjármuni sem fólk hefur verið allt sitt líf að leggja inn í þeirri trú að það gæti haft það þokkalegt í ellinni. Einn sjóðurinn fjárfesti í draumráðningarfyrirtæki fyrir tvöhundruð milljónir, þetta fyrirtæki var hvergi skráð og "PÚFF" fannst ekki þegar til átti að taka, tvöhundruð milljónir voru horfnar. En þetta var ekki nóg og til að kóróna vitleysuna þá fjárfesti sami sjóður í bresku fótboltaliði fyrir fimmtíu milljónir sem svo urðu að litlu sem engu. Þetta eru bara tvö lítil dæmi um hvernig lífeyrissparnaði sumra okkar er varið, og hverjir sitja í súpunni þegar upp er staðið? Ég hélt í einfeldni minni að þessir sjóðir reyndu að keyra á örruggum langtímavöxtum og hefðu hag sjóðþega að leiðarljósi, en því miður þá hefur því verið öðruvísi farið og sumstaðar hafa fávísir spilafíklar setið við stjórnvölinn og sóað fjármununum á áður óþekktum hraða. Nokkur dæmi þekki ég um aukalífeyrissparnað sem hefur rýrnað um tugi prósenta á ári án haldbærra skýringa. Ekki vantar faguryrðin og loforðin þegar verið er að lokka sauðmeinlaus fórnarlömbin að garðanum, lofað er gulli og grænum skógum. En efndirnar verða oft fátæklegar þegar að skuldadögum kemur. Sorglegt staðreynd er að örfáir sjóðir hafa svívirt sjóðsþega sína og ættu stjórnendur þeirra sjóða að vera lokaðir bak við lás og slá til frambúðar.................... Ekki ætla ég að setja alla lífeyrissjóði undir sama hatt og vonandi eru einhverjir sjóðir að gera gott, mikið hefur breyst á síðastliðnum árum þar sem þú hefur t.d val um í hvaða sjóð þú borgar, áður varð fólk nauðugt að borga í þá sjóði er tengdust viðkomandi áttvinnurekstri eða svæðinu sem unnið var á, sú kvöð er sem betur fer úr sögunni og þú velur hvert þú borgar, vandaðu bara valið!.

Þær voru svakalegar snjófréttirnar að norðan í kvöldfréttunum í gærkvöldi, allt komið á kaf heima á Dalvík, meira að segja ljósastaurarnir i Öldugötunni horfnir undir snjó. Þótt okkur fullorðna fólkinu blöskri snjómagnið er örugglega gaman að vera barn á Dalvík núna. Í huganum reikar maður aftur í tíman þegar allt var á kafi í snjó heima á Eskifirði, aldrei var skemmtilegra að vera barn. Stökkva í skafla renna sér á skíðum sleða þotu eða bílslöngum, stundum grófum við okkur inn í skaflana svo að úr urðu merkilegustu völundarhús. Þeir voru oft lengi að líða skóladagarnir þegar paradís vetrarins beið fyrir utan skólagluggann. Og aðal hryllingur dagsins var að eiga heimalærdóminn eftir þegar skólinn loksins var búinn. Ég held að ég gleymi aldrei þeirri stund er ég sat grenjandi á græna bólstraða eldhúsbekknum í eldhúsinu heima á Eskifirði með lestrarbókina fyrir framan mig, hágrenjandi yfir því að fá ekki að fara út að leika fyrr en ég væri búin að lesa eina blaðsíðu í litlu gulu hænunni, óréttlætið átti sér engin takmörk ;).

Og þetta verður innlegg mitt í umræðuna í dag.

Megi Englar Guðs aðstoða ykkur við að leysa sem best úr þeim viðfangsefnum sem á herðar ykkar eru lagðar í dag. Fyllið hjörtu ykkar af hamingju hlýju og kærleika og leifið öðrum að njóta þess með ykkur. Og munið að jákvæðni og bros er uppskrift að betri degi ;).

<º))))><.•´¯`•. Hörður .•´¯`•.><((((º>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi