..::Þvottavél hvað?::..
Frummaðurinn skreið um á fjórum samkvæmt kenningu fræðinganna, svo fór skepnan smátt og smátt að rétta úr sér og endaði með því að ganga upprétt með afturfæturna á jörðinni. Mannskepnunni virðist orðið eðlislægt að hafa fæturna á jörðinni hvort sem hún er Gul Rauð Svört eða Hvít, og í flestum löndum snýr fótabúnaðurinn niður þegar mannskepnan ber sig um. Svo koma skordýrin og einhver skriðdýr sem gengið geta á veggjum og neðan í loftum. Ekki veit ég hvort um einhverja stökkbreytingu er að ræða hér um borð en svo virðist sem þeir einstaklingar sem búa í þessari skútu séu búnir að tileinka sér veggjagöngu eins og maður hélt að skordýrum væri einum lagið, þetta gengur það bara býsna vel hjá sumum ;). Þróunin gengur hratt fyrir sig hérna og hver veit nema við getum gengið neðan í loftum áður en þessum túr líkur ,). Þetta eins og við séum fastir í tromlunni á þvottavél sem aldrei ætlar að verða búin að þvo ;).......allt hyskið veltist um innan í tromlunni hundblautt og ergilegt ;).

Eftir hádegið í dag hélt ég að veiðiveðrið væri að fjúka burt aftur eftir aðeins tvö hol, við hífuðum og sjórinn rauk í hvassviðrinu og það var ofsi í honum, strákagreyin sáu ekki handa sinna skil í særokinu en druslan hafðist inn og ég ákvað að doka við. Loftvogin var komin niður í 968mb og hafði fallið um 12mb síðastliðna tvo tíma, maður bölvarði veðrinu í hljóði og var ekki sá bjartsýnasti. En undur og stórmerki, strákarnir voru varla komnir niður þegar þetta var gengið yfir og komið þokkalegt veður. Drengirnir voru drifnir á dekk og druslunni gusað út aftur á tvöföldum hraða. Hvað þetta stendur veit ég ekki en það verður að nota hverja smugu til að hafa drusluna úti því ekkert kemur í hana á dekkinu.

Ekki náði ég útvarpinu nógu vel í gærkvöldi, en nógu vel til að heyra að Gunnar Einarsson mannsefni litlu systur minnar hefði verið heiðraður af sjálfum forsetanum. Þeir eru víst búnir að búa til eitthvert forrit sem getur fundið út hvaða lag maður er að söngla, bara með því að söngla lagstúf úr laginu fyrir forritið. Þetta kom mér svo sem ekki á óvart því drengurinn er ótrúlega klár í allskyns forritun og öllu er viðkemur tölvudóti, þetta var bara spurning um tíma hvenær menn áttuðu sig á því. Vil ég hér með óska Gunna til hamingju með árangurinn og litlu systur til hamingju með mannsefnið, hann er alltaf að verða verðmeiri ;).

Ég ætla að vona að veðurguðirnir hafi verði Norðlendingum náðugir og þar sé vonskuveðrið og snjókoman yfirgengin. En mér segir svo hugur að það séu einhver handtök eftir áður en fært verður og fólk getur komist allra ferða sinna á vandræða, en þetta fylgir staðsetningunni og þegar komið er svona nálægt heimskautinu má eiga von á vindsperring og fannfergi.

Ætli þetta verði ekki lokaorðin í dag.

Bið Guð að passa ykkur öll fyrir mig meðan ég er í burtu.

<º))))><.•´¯`•. Hörður .•´¯`•.><((((º>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi