..::Bleksvartasta::..

Undur og stórmerki gerast enn, það var komið þokkalegt veður í gærkvöldi og var veiðin bara í lagi hjá okkur svo allir brostu hringinn og gleymdu velting og vosbúð undanfarinna vikna ;). En Adam var ekki lengi í paradís, bandið í lausfrystinum stoppaði og við nánari athugun kom í ljós að drifhjólin voru orðin eins og tennurnar í gamalli Inuíta kellingu, kellingu sem er búin að tyggja skinnfatnað á þrjár kynslóðir. Ykkur til fróðleiks þá tuggðu Inuíta kerlingarnar öll skinn sem notuð voru i fatnað til að mýkja þau áður en saumað var úr þeim, þetta var nokkurskonar sútun þess tíma, þóttu gamlar kerlingar með uppslitnar tennur bestar í þessháttar sútun. Það er náttúrulega ekki vinnandi vegur að ná þessu í sundur og eru þeir frændur kófsveittir í að reina að ná þessu í sundur svo koma megi nýjum drifhjólum á og byrja að frysta þessi kvikindi sem bíða í vinnslunni. En þetta hefur ekki verið tekið í sundur síðan sautjánhundruð og súrkál og það er eins og sá gamli svarti með halann og hornin hafi klórað þetta saman fyrir aftan óæðri endann á sér. Allt kolfast og gróið saman.........bleksvartasta.

En það þýðir víst lítið að barma sér og enn verður maður að trúa á Guð og lukkuna, einu hjálpina sem hér er að hafa ,). Og nú lætur maður reka í blíðunni! þetta er öfugsnúið það er búið að berjast á hæl og hnakka allan túrinn og oftar en ekki hefur maður verið með hjartað í brókinni þegar verið er að innbyrgða drusluna í tvísýnu veðri, svo liggur fyrir manni að láta reka í blíðunni eins og hundur með skottið milli lappanna. En þetta er alltaf eins, hlutirnir bila oftast þegar mest þarf á þeim að halda. Morfis lögmálin eru í fullu gildi hjá okkur ,).

Anton var loksins búin að ná annarri búkkalegunni af og auðvitað var hún í druslum hvað annað?. Þá varð vélstjórinn að fara kjörstöðu íslensku sauðkindarinnar og skríða á fjórum um birgðageymslurnar á milliloftinu undir brúnni í leit að nýrri legu, það er svo lágt til lofts að fara verður allra sinna ferða á fjórum. Það eitt af fáum skiptum sem ég þakka Guði fyrir að vera ekki vélstjóri þegar leita þarf að einhverju á þessu Guðsvolaða birgðalofti. Eftir að Anton var búin að leita af sér allan grun um að þessi legufjandi væri til, þá skreið ég um allt loftið og leitaði en fann ekkert frekar en Anton "skrítið!". Argara þvargara! En það verður að reina að skítmixa þetta til bráðarbyrgða svo að við fórum út í að smíða nýja legu úr plasti, það er ekki til rennibekkur svo að það varð að notast við það sem til var, sög smergil og rúnþjöl og með þessum frumstæðu vopnum var bráðarbyrgðalegan smíðuð og henni svo troðið í búkkann og skrúfuð föst ,). Svo var ruslinu hjólað saman og draslið rekið af stað, tók aðeins sjö tíma að skítmixa þetta saman. Og enn og aftur treystum við á Guð og lukkuna og vonum að þetta endist eitthvað tíma. Ef þetta hangir þá mundi ég flokka þetta undir skítmix aldarinnar ,). En Valgarður verður að vera eins og kórdrengur það sem eftir er af túrnum því hann er orðin kvótalaus á blótsyrðum. Þeir stóðu sig eins og hetjur í þessu frændurnir, og voru ætt sinni til mikils sóma.

Meðan á þessu basli okkar hefur staðið er búið að vera blíðuveður eini þokkalegi kaflinn það sem af er, en nú er blíðan að fjúka burt og hægt og sígandi bætir í vindinn en það er bara eftir Janúar forskriftinni ;).

Það var þvottadagur hjá mér í dag og var full vél af þvotti, en það verður að þurrka upp á gamla móðinn því þurrkarinn þoldi ekki veltinginn og gafst upp á baslinu, ég held að tromlan í honum hafi rifið sig lausa allavega stemmir hún engan vegin við opið á apparatinu þegar opnað er. Blessuð sé minning þurrkarans sáluga. Ég útbjó snúrur í klefanum mínum og hengdi fatalufsurnar mínar á þær, maður verður bara að vona að það velti ekki svo mikið að þær nuddist sundur áður en þær þorna ;).

Þetta verður að duga ykkur í dag.

Vona að þið hafið verið þæg og góð undanfarið ,).
Gangið á Guðsvegum í Guðsfriði.

<º))))><.•´¯`•. Hörður .•´¯`•.><((((º>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi