21 jan 2004

..::Hann á afmæli í dag!!!::..
Elsku Einar minn til hamingju með daginn!
Tíminn hendist áfram og í dag er Einar Már orðin ellefu ára, mér finnst vera svo stutt síðan hann var bara pínupons með fjólubláa blettinn á nefinu :), bletturinn hvarf og drengurinn minn er ekki lengur pínupons heldur stór og stæðilegur drengur :) ellefu ára. Í dag væri gaman að vera heima og geta fagnað þessum tímamótum með honum.

Ég ætla að vona að litli drengurinn minn eigi skemmtilegan afmælisdag og lífið haldi áfram að leika við hann. Það er löng leið fyrir höndum og margar freistingar sem verða á leiðinni, því vil ég biðja Guð og hans vermdarengla um að passa litla guttann minn fyrir mig og leiða hann rétta leið um vandrataða stíga lífsins.

það er margt sem við sjómennirnir missum af og margar ómetanlegar stundirnar sem glatast, en alltaf slangur af fólki sem í sinni vanþekkingu heldur að við séum ofaldir gullgrísir sem engan rétt eigum á sjómannaafslætti eða þeim launum sem við höfum. Oftast er bara bent á bestu plássin og dregnir fram einhverjir mettúrar, svo eru allar forsendur dregnar úr samhengi svo að matreiðslan henti á borð enn fáfróðari einstaklinga, einstaklinga sem háma í sig vitleysisgrautinn eins og þeim væri borgað fyrir. En var væri Ísland statt ef ekki væru sjómenn og fiskveiðar? Og mætti bjóða þeim sem mest básúna ofeldið að velkjast í þessum kollum í öllum veðrum mánuðum saman meira og minna sambandslausir við umheiminn?

En ég ætla ekki að eiða meira púðri í það sem engin leið er að breyta og snúa mér frekar að fréttum af okkur á Dollunni. Veðrið hefur verið þokkalegt undanfarna daga og þetta hefur mjakast í rétta átt hjá okkur. Bjartsýnisengilinn hefur verið með okkur og ólíklegustu menn í áhöfninni leika við hvern sinn fingur, gantast og glettast. En þetta er oft svona eftir erfiða túra þegar það fer að sjást fyrir endann á þeim, þá er baslið og vosbúðin fljót að gleymast. Það er sjálfsagt eitt af þessum ófundnu genum sem Kári í Decode á eftir að finna "sjómannsgenið" þeir sem eru smitaðir af því geni virðast eiga auðveldara með að gleyma öllu því leiðinlega, ofan á öllu baslinu og leiðindunum fljóta góðu dagarnir eins og olía á vatni. Maður er fljótur að skima burt allt sem ekki er vert að muna, og þegar maður horfir aftur til baka þá sér maður ekki brælurnar og erfiðið ;).

Bið svo Guð almáttugan að fylla hjörtu okkar af hamingju hlýju og kærleika, vaka yfir okkur og passa fyrir öllu vondu og ljótu. Munið eftir brosinu þeim sem eiga bágt eða minna mega sín, og takist á við lífið af jákvæðni og bjartsýni ;). Guð geimi ykkur.


<º))))><.•´¯`•. Hörður .•´¯`•.><((((º>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi