..::Mistök::..
Ég held að það hafi átt vel við heilaleysis titilinn í gær, allavega var reiknisdæmið um trollaldurinn ekki upp á marga fiska, en hvað er helmingsskekkja milli vina?. Hjá sumum verður að deila með tveim í allt sem sagt er til að komast nálægt sannleikanum, þá náunga þekkja flestir og ef maður hefur stuðulinn þá kemst maður nálægt sannleika þeirra ;). Mamma reyndi að berja inn í hausinn á mér að sannleikurinn væri sagna bestur og hef ég reynt að halda mig við það að fremsta megni ,).

Það hafa sennilega orðið hroðaleg mistök hjá veðurguðunum seinnipartinn í gær því það var allur vindur úr þeim og um miðnætti var komið LOGN! Já ég sagði logn og var ekki að grínast. Það læddist að manni grunur um að þetta væri eitthvert svikalogn, en er á meðan er og þetta er eins og þegar barni (og sumum fullorðnum) er rétt sælgæti, maður ræður sér varla fyrir kæti og veit ekkert hvernig á að taka þessari óvæntu hamingju ;).

Fyrir hádegi tók ég Tona vin minn og klippti hann, þetta er lengri gerðin af snoðklippingu og fer karlinum nokkuð vel. Það var ekki hægt annað en að klippa karlinn því að hann var orðin eins og Jónas R Jónasson um höfuðið, lokkarnir löfðu fyrir öll vit. En Toni vantaði sveifluna og hann ekki umboðsmaður neinnar skepnu, svo að það eina sem þeir félagar áttu sameiginlegt var hárprýðin. Eftir klippinguna er Toni nær Þorsteini J í útliti, voru þau umskipti til betri vegar að mínu mati ,).

Góða veðrið kom okkur í góðar þarfir, því að þegar druslan var inni á dekki í dag, hljóp ég niður á dekk til að líta yfir græjurnar. Þá sé ég að einn hleraskórinn er að detta undan stjórnborðshleragarminum. Hleranum var umsvifalaust kippt inn á dekk og þá kom í ljós að þar sem fimm boltar áttu að vera í einum skó voru aðeins tveir, svo var þetta svo haug haug slitið og útjagað að mér fannst innst inni kraftaverk að það skyldu yfir höfuð hanga skór á þessum hlerum. En ekki dugir að grenja og væla og það varð að reina að bjarga þessu til bráðabyrgða þó ekki væri annað ;), ekki voru til nýir boltar en nokkrir gamlir fundust ,). Þá vantaði rærnar og þær voru bara ekki til hvernig sem leitað var, en einhvernvegin verður að reina að ljúga þetta saman svo við skárum keðjuhlekki og suðum fasta á gömlu boltaræflana, svo verður að treysta enn og aftur á Guð og lukkuna og vona að þetta hangi túrinn. Þegar betur var að gáð var ástandið eins á báðum hlerum svo lungað úr deginum virðist ætla að fara í að skítmixa þetta saman. Það var lukka í ólukkunni að þetta sást núna, ekki hefur viðrað til þess að vera með hlerana á dekkinu eða til suðuviðgerða það sem af er veiðiferðinni, svo segja má að í þessu hafi ógæfuhjólið snúist okkur í hag, eins og maðurinn orðaði það svo skemmtilega um árið ;).

Þetta er innlegg mitt á bloggið í dag.

Bið Guð að vera með ykkur, hann er sá sem við hérna leitum til með vandamálin. Hann er alltaf tilbúin að hlusta á okkur, það er kostur sem ekki verður metin til fjár. Gangið á Guðsvegum.....................

<º))))><.•´¯`•. Hörður .•´¯`•.><((((º>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi