..::Þokast í rétta átt í þokunni::..
Það væri sjálfsagt ekkert gaman af lífinu ef allt kæmi áreynslulaust upp í hendurnar á manni, eða hvað :)?. Það var aðeins skárra hjá okkur í gærkvöldi svo að við virðumst á réttri leið með breytingarnar á trollinu, en mér sýnist að það þurfi örlitla jústeringu enn þangað til ég verð sáttur, en þetta kemur örugglega með tíð og tíma :). Verst hvað er lítið magn af rækju á ferðinni hérna núna þótt einstaklingarnir séu margir, það væri líklega allt fullt af rækju hérna á hattinum ef þær væru allar orðnar 8.3gr, en ég heyrði því miður tölu upp í 520stk/kg í gær sem gerir hvern einstakling 1,9gr æææææææ ekki gott að lenda á þannig holum.

Jón lagðist yfir nýja þurrkarann sem kom nýr og bilaður um borð í stoppinu í vor, Lee fékk hann á afslætti út af einhverri beyglu og mér finnst að hann hafi keypt köttinn í sekknum, því þurrkarinn snérist aldrei, en þegar Jón var búi að klappa honum og strjúka og krukka aðeins í hann þá malar þetta eins og köttur :). Hvernig færi maður eiginlega að ef maður hefði ekki svona góðan vélstjóra?.

Í dag er sunnan golukaldi og lítið skyggni en samt er svo heitt og mollulegt að maður er rennsveittur, ég lokkaði vélstjórann upp til að leysa mig af svo ég gæti stokkið í sturtu um miðjan daginn. En það er búin að vera að drepa mig einhver hálsrígur sem ég hélt að lagaðist í heita vatninu, það lagaðist því miður ekki svo maður verður þá bara að bíða og vona að þetta komi til á næstu dögum.

Snapaði mér frétta af rækjuveiði í Barentshafinu og er hún á svipuðum nótum og hérna, mörg skip og lítil veiði, þó var nudd hjá þeim í Apríl en núna er dapurt. Sömu söguna heyrir maður af úthafkarfanum en maður heyrir stundum malið í þeim á stóru stöðinni, það er víst ekki komin neinn kraftur í karfann ennþá.

Og lengra verður þetta ekki núna.
Vona að Guðs útvöldu englar vaki yfir sálum ykkar.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi