..::Tilkynningarskylda embættisins::..
Í gærkvöldi klukkan 20:25 UTC mætti háttsettur eftirlitsmaður NAFO stífgreiddur og strokin á stjórnpall og sagði, "can I Europian Union?" Og benti á talstöðina. Ég hélt það nú og stillti á þá tíðni sem kappinn bað um. Ég hélt að hann væri að fara að hlusta á einhverjar fréttir sem væru ómissandi. Klukkan 20:30 heyri ég að það er byrjað að tjúna og svo kemur rödd inn sem tilkynnir að þetta sé eitthvert show frá Evrópska eftirlitsskipinu og bullar eitthvað meira á engilsaxlensku, smá þögn og svo er kallað á fyrsta skipið, það svarar "Good evening sir, there is nothing to report bla bla bla", svo eru skipin kölluð upp koll af kolli. Ég sé að minn maður reigist eins og bílfjöður og hækkaði um 2sentimetra af spenningi, það eru kallaðir upp allir félagarnir en aldrei er dollan kölluð upp :(. Andvari er kallaður upp, en þá er okkar maður orðin svo spenntur að hann er hættur að greina hvað sagt er í stöðinni, hann þrífur upp tólið og æpir "nothing to report!" ég hnippti í kall og benti honum á að þeir hefðu verið að kalla í Andvara "ÚBBS!" Evrópska skipið kallar aftur "who was calling? Andvari?" minn maður þegir þunnu hljóði skömmustulegur eftir frumhlaupið. Svo heldur showið áfram þar sem Andvari svaraði ekki aftur. Þetta er svona eins og Eurovision þegar verið er að hringja inn stigin :), en loksins eftir langa og stranga bið er röðin komin að dollunni, minn maður svarar ábúðarfullur "This is Erla, nothing to report" hann er spurður að nafni sem hann gefur upp, loftskeytamaðurinn á Evrópska eftirlitsskipinu þakkar honum fyrir og segist heyra í honum aftur annað kvöld. Það var roggin embættismaður NAFO sem rölti niður úr brúnni í gærkvöldi, hann var tommu hærri en þegar hann kom upp og fann greinilega mun meira fyrir embættinu en áður. Ég hafði gaman af þessum viðburði og var stoltur fyrir hönd útvarðar NAFO hér um borð, en nú verður þetta embættisverk að daglegum viðburði í dollunni og fljótlega hættir maður sjálfsagt að taka eftir þessum viðburði.

Í gærkvöldi fylltumst við bjartsýni og ákváðum að gera nætur prufu með brókinni, auðvitað var maður slegin í hausinn og var þetta því síðasta næturholið í þessari veiðiferð.Við erum búnir að vera að skakast djúpt í vesturkantinum en þar hafa verið þokkalegar pöddur en bara allt of fáar, en það er úr vöndu að ráða þegar lítið er í boði, annaðhvort er það rykmý eða ekki neitt. Einhvernvegin virðist það vera svo að þessari dollu hafi verið úthlutað ráðlögðum dagskammti af rækjupöddum að læknisráði, og máttarvöldin gera allt sem í þeirra valdi stendur til að halda aflanum sem næst þessum ráðlagða skammti "arrg!". Ég frétti af tveim skipum sem ráku í hol í austurkantinum í dag, en þeir voru fljótir að pilla sig af þeirri slóð, þutu burt eins og kettir sem vatni hefur verið skvett á. Aðalástæðan fyrir flóttanum ógurlega var að þetta var bara rykmý, með öðrum orðum krill. Þeir hafa sjálfsagt verið með brjóstið fullt af vonum karlagreyin, það hlýtur að hafa verið drullufúlt að fá svona ódrátt. En við dollumenn gerum okkur aftur á móti engar vonir, þetta eru alltaf óvænt endalok þegar híft er á dollunni, aflanemarnir töpuðust í síðasta túr svo að þetta er hálfgert fálm út í myrkrið hjá okkur, við sjáum innkomu en eigum engan möguleika á því að greina hvað er að skila sér í pokana eða ekki. En einhvernvegin tussaðist þetta hjá mönnum áður en allir þessir nemar komu á trollin, svo að þetta er ekkert verra en það var hérna áður fyrr :).

Og þar með líkur þessu í dag.
Munið eftir þeim sem minna mega sín og brosið framan í veröldina, allt sem frá ykkur fer ku koma til baka :):):).........................

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi