..::Skakstur og skælingur::..

Nú er silkiblíðan farin og við tekin austsuðaustan skælingur með tilheyrandi velting og skakstri. Það þíðir lítið að stauta í þrifum við þessar aðstæður og er því lífið í dósinni með rólegra mótinu, þó var ekki hjá því komist að taka hlerana inn í dag því þeir létu ófriðlega. Hlerarnir þurfa að vera komnir inn á dekk áður en við krossum 200sml landhelgislínuna svo að við kipptum þeim inn þegar þeir byrjuðu að minna á sig.

Klukkan 17:00 vorum við staddir samkvæmt GPS á 59°54N 029°41W 565km suðvestur úr Reykjanesi, veður er austsuðaustan 17m/s og sjóslampandi.

Eitthvað dregur þessi ófriður í veðrinu úr framdrifi dollunnar en það verður að taka því með ró, ég sé ekki að það skilaði okkur neinu að lemjast áfram með illsku og látum :):), það yrði bara olíuaustur út í loftið ásamt því að endanlega yrði ólíft hér um borð fyrir látum. Við þessar aðstæður eru það rólegheitin sem best henta þessari dós.

Fleira er ekki í þættinum í dag.

Fer góðfúslega fram á það við þann sem öllu ræður að hann geri allt sem í hans valdi stendur til að gera ykkur lífið sem léttast.........


Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi