..::Ice Age::..

Byrjaði daginn á andlegri upplyftingu í Bjarmanum.
Lét svo vaða á Ísinn í dag og var það heljarinnar fjör, spændi og spólaði út um alla Hrísatjörnina eins og ég ætti lífið að leysa, neglingin virkaði betur en ég átti von en er náttúrulega ekkert í líkingu við ísdekkin sem kosta 20-25.000kr stykkið, en ég gat vel við unað enda kostaði þetta mig ekki svo mikið kannski 2000kr plús vinnuna við að koma þessu í togleðurshringina ;).
Það sem ég er ekki vanur svona ísreið þá tók það mann smátíma að ná upp áræðni og lagni til að þeysa spólandi um á fullu gasi, en þetta kom ;), það var þunnt snjólag yfir öllum ísnum og sumstaðar örlítið þykkri skellur sem gáfu meira grip, þetta gerði þetta aðeins erfiðara en þar sem ég var nýgræðingur í þessu þá fannst mér þetta í lagi :).
Það komu svo tveir á á krossurum með þessu fínu dekk, þar var gripið. Þeir áttu ekki í neinum vandræðum með að prjóna þótt þeir væru á ísnum, en munurinn var líka sá að þeir voru með þessu fínu verksmiðjuísdekk sem kostuðu sitt.
Þeir voru aftur á móti ekki neitt sérlega spenntir fyrir þessum ís og þótti hann leiðinlegur, enda gerðu snjóskellurnar hann ekki neitt sérlega skemmtilegan.
Ég var að spæna á ísnum til fimm, þá hætti ég og fór heim, ánægður með daginn á ísnum.
Guðný hafði farið í bústað með saumaklúbbnum og Hjördís var að passa Bjarka svo við feðgarnir vorum einir heima, ég eldaði hammara í kvöld og sagði Einar Már að þetta væri besti borgari sem hann hefði smakkað, ég er samt viss um að hann sagði þetta bara til að gleðja mig :). Ég eyddi svo kvöldinu í sjónvarpsgláp ásamt því að ég setti svolítið af myndum inn í sjóalbúmið, en það þykknar heldur og á eftir að þykkna mun meira þegar fram í sækir, en allt gott gerist hægt eins og kerlingin orðaði það, ekki veit ég hvað hún hefur verið að meina með þessu. Kannski að karlinn hafi verið svona snöggur, eða??:).
Það er best að fara ekki meira út á þessa braut enda er hún hálli en ísinn hehumm...
Læt þetta nægja í dag.
Gangið á Guðsvegum í Guðsfriði ;)................

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi