..::Til hamingju með daginn::..
Eitthvað misfórst dagsskýrslan hjá mér í gær en ég hef fulla trú á að mér verði fyrirgefin yfirsjónin þar sem ég er svo góður drengur hehe.
Við vorum að vinna við löndun í allan gærdaginn, fyrri dollan kláraðist rétt fyrir hádegi og sveif svo burt seglum þöndum (svona næstum því).
Svo var haldið áfram með hina dolluna.
Gummi trollari skrapp á tuðrunni yfir í Betuna og horfði á leik með strákunum þar, til gleði fyrir Gumma þá tapaði liðið hans.

Í gærkvöld mætti svo bróðir Janus og múraði við okkur, hann þurfti að létta aðeins á sér olíu áður en hann fer í slippinn svo að við tökum einhver sopa úr honum.
Strákarnir á Janusi komu svo í heimsókn og sátu þeir og spjölluðu langt fram eftir kvöldi, á meðan bunaði svarta gullið í mallakútinn á Síriusi.

Í dag er svo litli pjakkurinn minn 14ára, já tíminn líður ótrúlega hratt. Ég talaði aðeins við hann í morgun en þá voru þeir vinirnir að fara á snjóbretti inn í Hlíðarfjall, ég get vel ímyndað mér að það verði gaman.
Einar minn til hamingju með afmælið!!!, verst að geta ekki verið heima og hjálpað þér með terturnar :).

LÍTILL DRENGUR

Óðum steðjar að sá dagur,
afmæli þitt kemur enn.
Lítill drengur, ljós og fagur
lífsins skilning öðlast senn.
Vildi ég að alltaf yrði
við áhyggjurnar laus sem nú,
en allt fer hér á eina veginn,
í átt til foldar mjakast þú.

Ég vildi geta verið hjá þér
veslings barnið mitt.
Umlukið þig með örmum mínum.
Unir hver við sitt.
Oft ég hugsa auðmjúkt til þín
einkum, þegar húmar að.
Eins þótt fari óravegu
átt þú mer í hjarta stað.

Man ég munað slíkan,
er morgun rann með daglegt stress,
að ljúfur drengur lagði á sig
lítið ferðalag til þess
að koma í holu hlýja,
höfgum pabba sínum hjá.
Kúra sig í kotið hálsa
kærleiksorðin þurfti fá.

Einka þér til eftirbreytni
alla betri menn en mig.
Erfiðleikar að þó steðji
alltaf skaltu vara þig,
að færast ekki í fang svo mikið,
að festu þinnar brotni tré.
Allt hið góða í heimi haldi
í hönd á þér og með þér sé.

Texti: Vilhjálmur Vilhjálmsson


Mynd dagsins er af brother Janus þar sem hann kemur fagnandi með sjóðheitt svartagullið.

Þetta verður innlegg mitt í hringiðu dagsins.
Vona að þið hafið það öll sem best og verið ekkert að hafa neinar áhyggjur af því sem ókomið er, það fer einhvernvegin!!;).

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Til hamingju með drenginn´,ætlaði að heyra í honum í gær en hann var á brettinu.Mér hefur alltaf fundist lítill drengur með Vilhjálmi mjög fallegt.

Vinsælar færslur af þessu bloggi