..::Týpikal PornoDog::..
Komum til Las Palmas í nótt og vorum komnir upp að bryggju um ½ 2. Klukkan sjö í morgun var svo her manna mættur til að byrja á rafalaviðgerðinni og fór það verk af stað með trukki og dýfu.
Eftir morgun matinn stautaði ég upp í brú og horfði yfir hafnarsvæðið sem var að vakna upp af nóttinni, á bryggjunni voru þrír hundar að snöfla,stærðarhlutföllin á þeim voru lítill minni minnstur.
Ég fór niður í eldhús og safnaði saman einhverjum kjötafskurði úr rusladallinum og grýtti því svo upp á bryggju til hundanna, þeir voru alveg dillandi ánægðir með morgunmatinn og voru fljótir að gleypa þetta góðgæti í sig.

Strákarnir á Geysi komu að heimsækja okkur og var margt að spá og spekúlera, það er alltaf af nógu að taka þegar menn hittast ;).

Eftir hádegismatinn fékk ég mér bryggjurölt en það kennir ýmissa grasa í þessari höfn, allskyns fleytur af öllum stærðum og gerðum og gaman að rölta um og fylgjast með. Víða var verið að ditta að þessum pungum og greinilega misjafnt hversu mikinn metnaður var lagður í verkin, t.d rölti ég fram hjá einum Rússatogara sem leit bara ágætlega út, þar var verið að mála á fullu og var ekki annað að sjá en að þeir rúlluðu bara yfir það sem fyrir var, ryð drullu og skít það var lellað yfir þetta allt. Mér datt í hug orðtiltækið “oft er flagð undir fögru skinni!”.

Á þessu bryggjurölti mínu rakst ég á lítinn uppsjávarpramma sem var með Íslenska fánann uppi, nafnið á þessum pung var “Que Sera Sera” hvað sem það nú þíðir.
Það var greinilega mikið um að vera þar um borð og allt á fullu við að taka kost og aðrar nauðsynjar. Þarna rek ég augun í mann sem ég kannaðist við, Ketill sem var vélstjóri á Eyborginni var eitthvað að snússast þarna á dekkinu, ég kallaði á kauða og hann kom upp á bryggju og spjallaði svolítið, þarna er hann búin að vera síðan í vor og lét ágætlega af vistinni. Já heimurinn er ekki stór og oft rekst maður á einhverja sem maður þekkir þegar maður á síst von á því.

Um kvöldmatarleitið voru fjórfættu félagar mínir mættir aftur en núna vantaði þann minnsta, ég fór niður og fann einhver bein handa greyjunum og grýtti upp á bryggjuna. Meðan ég er að dunda mér við þetta bætist enn einn fjórfætlingurinn í hópinn og var hann mun stærri og vígalegri en þeir sem fyrir voru.
Nú færðist fjör í leikinn því þetta var greinilega tík á lóðaríi, færðist því athyglin frá beinunum að nýmættri drottningu bryggjunnar.
Næsta hálftímann eða svo hömuðust þeir félagar í að reyna að koma vilja sínum fram við þá háfættu, annar átti engan séns en hinn reyndi mikið en var full fótstuttur til að gagnast drottningunni að nokkru viti, enda skipti hún sér ekki mikið af þessu basli þeirra félaga og nagaði bein í rólegheitunum á meðan þeir spreyttu sig.
Niðurstaða mín af þessu áhorfi er sú að þetta eru líklega ekki flækingshundar eins og ég hélt upphaflega heldur eru þetta þessir týpísku PornoDog sem maður hefur stundum heyrt nefnda.

Í kvöld fengum við okkur svo bæjarrölt og fengum okkur Pitsu, auðvitað hittum við slatta af mörlöndum enda mikið af fólki á ferðinni.

Mynd dagsins er af Kristjáni vinnslustjóra þar sem hann undirbýr sig undir að útdeila vasapeningunum á áhöfnina.

Þannig leið þessi dagurinn.
Vona að þið hafið átt góðan dag.......................

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Ertu nokkuð kominn í hundana á Kanarí????
Ættir nú að athuga með kettling á skipið. kær kveðja úr Kríulandi
Hörður Hólm sagði…
Til þess að fyrirbyggja allan misskylning þá hefur yfirskriftin yfir þessu bloggi ekkert með Kristján að gera, að bast ég veit þá er hann ekki PornoDog.
:) en þetta leit kannski þannig út, sorry Kristján.

Vinsælar færslur af þessu bloggi