..::Allt í hund og kött:..
Dagurinn í gær var ekki merkilegur, það var allt á fullu í Rafalaviðgerðinni og okkar menn voru að vinna í málningu og öðru sem fellur til, ásamt því að trollgengið okkar er á fullu á netaverkstæðinu.

Fram undir hádegi rigndi eins og sturtað væri úr fötu en svo stytti upp, ég lagði land undir fót og rölti yfir í slippinn og heimsótti Geysismenn, þetta var 20min labb hvora leið og ágætis heilsubótarganga.
Þegar ég kom til baka heimsótti ég hundana í portinu og gaf þeim nokkrar gamla pylsur sem þeir hökkuðu í sig, annars eru greyin mjög kurteisir og góðir, sjálfsagt hefur lífið hjá þessum greyjum ekki alltaf verið auðvelt og ber einn þess merki að hafa þurft að berjast fyrir sínu, en hvolpurinn er algjör dúlla og stendur alveg upp úr.
Konan hans Reynis hefur verið á fullu í að reyna að redda okkur kettling en það er þrautin þyngri og greinilegt að þetta gengur ekki fyrir sig eins og á Íslandi, kannski sem betur fer. En það fannst lausn á þessu og kisi er fundin, hann er að vísu fullvaxin en kassavanur geltur og sprautaður, í gær fékk svo greyið örmerki í eyrað.
Núna er hann heima hjá Reyni og verður sjálfsagt þar þangað til við losnum héðan hvenær sem það nú verður.

Vélstjórinn minn hefur sveiflast fram og til baka í þessu viðgerðarferli, aðra mínútuna er hann mjög svartsýnn á framhaldið en svo lítur þetta ágætlega út á milli, maður krossar alla útlimi og vonar að bjartsýnin sigri og þetta gangi allt vel.

Í gærkvöldi fórum við svo bæjarrölt og fengum okkur að borða á Brasilískum matsölustað. Maður fær engan matseðil, heldur kemur þjónninn bara með réttina á teini og sker niður jafn óðum, ég veit ekki hvernig það er hægt að innbyrgða allt sem í boði var og varð ég að segja stopp á endanum, á eftir var svo tekin tertusneið til að kítta í þær holur sem lausar voru í maga okkar. Eftir þessa máltíð stóð maður á blístri í orðsins fyllstu merkingu.

Í morgun bakaði svo sólin niður og veðrið var alveg dillandi, ég fór og gaf vinum mínum nokkra pylsubita og skrapp svo yfir í lítinn Spánskan togara og spjallaði aðeins við þá þar um borð, tungumálið vafðist aðeins fyrir okkur og má segja að Spænska skipstjóranum hafi vafist tunga um hönd þegar kom að enskunni, en með penna og blaði var hægt að leysa úr því sem mig langaði að vita.

Annars er ekki mikið að segja, ég er enn að díla við þessa flensu sem ég fékk og er ekki orðin góður, þetta fer að verða ögn pirrandi hvað þetta ætlar að hanga í mér en vonandi fer þetta að koma.

Þetta er það helsta sem af okkur er að frétta.

Mynd dagsins er af lita hvolpinum sem ég færi afgangana, hann var alveg dillandi ánægður með að sjá mig í dag, Reynir kom svo með mér seinnipartinn og tók litla krílið upp, hann hafði greinilega aldrei verið tekin upp því hann vældi eins og stungin grís og braust um þegar Reynir tók hann upp.

Læt þetta nægja í dag.
Vona að Guðs englar vaki yfir ykkur öllum hvar sem þið eruð niðurkomin....

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Gott að frétta af þér,en ekki ætlarðu að skilja hvolpinn vin þinn eftir þarna hjá stóru ljótu hundunum.;-)
Nafnlaus sagði…
Góðann daginn Hörður minn eg hefði nú frekar tekið hvolpinn.Heðan er allt gott að fretta við erum að fara á þorrablót i Fljótshliðina í kvöld verðum örugglega jafn út kíld og þú nema samsetninginn verður alt önnur vonandi hefur þú það sem allra best Erna biður að heilsa ps það væri ekki amalegt að vera i veislun ni hjá Gumma og Kalla kv Kalli

Vinsælar færslur af þessu bloggi