Kannski er maður bara að verða vanur þessum brælum, nema veðrið hafi verið aðeins skárra eftir hádegi í dag. Kyndingin er enn og aftur að stríða okkur og hefur ekki verið hiti á skútunni síðan í nótt ;).
Það var bölvuð óþverrabræla í nótt og míglak vatnsausturinn í kojuna hjá mér svo að maður var hundblautur og druslulegur þegar maður aulaðist fram úr í morgun, that´s it og nú veður þetta loft rifið niður og reynt að komast fyrir vandann.
Við fengum upplýsingar frá Ölfu sérfræðing um keyrslu höfuðmótorsins og kom þá í ljós að við vorum með óþarfa áhyggur af afgas og skollofts hita og nú er hægt að keyra aðeins meira.
Í hádeginu datt svo rafvirkinn niður stigann á neðri ganginum og lá lengi emjandi í gólfinu, við vorum helst á því að hann væri rifbrotinn. Ég guðaði í hann einhverjum verkjalyfjum og hringdi svo í læknir.
Eftir samtal við lækninn kom í ljós að lítið er hægt að gera annað en að gefa honum verkjalyf og sjá til, þeir drusluðu honum svo inn í klefa. Seinnipartinn þegar ég leit á kappann var hann ekki mjög þjáður að sjá, óvenju góður miðað við hvernig hann var fyrsta hálftímann eftir að hann datt.
Veðurkortið fyrir daginn á morgun lítur illa út og sýnist mér að við fáum eina bræluna enn í fangið, jamm ekki veit ég hvað við höfum gert á hlut almættisins til að verðskulda þessar eilífu brælur og vandræði, en það verður að borga fyrir syndirnar. Með þessu áframhaldi ættum við að komast í inneign von bráðar ;).
En það þíðir ekkert annað en að brosa framan í heiminn og vona að heimurinn brosi við okkur, þetta hlýtur að ganga yfir fyrir rest.
Flottar fréttir með álverið fyrir Austan, það ætti að sökkva meira af hálendinu og virkja alla þessa orku sem rennur óbeisluð til sjávar, ég skil ekki þetta pakk sem alltaf er gapandi um náttúrufegurð og skemmdarverk. Fæst að þessu fólki hefur komið upp á hálendið og veit ekkert hvað þar er, ég segi enn og aftur “undir vatn með þessa auðn” það fýkur allavega ekki burt á meðan það er undir vatni ;).
Tók mig til og klippti frænda í dag, hann var orðinn eins og æðsti Strumpur. Ég mátti til með að raka af honum yfirskeggið fyrst og sjá hvernig hann kæmi út með skegg eins og Össur. Það var ekkert skárra á Kidda heldur en Össuri svo að við spændum það allt af, og núna lítur frændi út fyrir að vera tíu árum yngri með loðberjaklippinguna ;).
Jón er búin að eiða öllum deginum í þessa Guðs voluðu kyndingu og er ekki enn komin hiti á skútuna, ég hef trú á að Nonni hafi ætlað að eiða deginum í annað en kyndinguna ;).
Félagar Kiddi og Jón fóru svo í að rífa niður loftið yfir kojunni minni seinnipartinn og satt best að segja kom lítið út úr því, en þó liggur loftræstistokkur undir grun. Ég ákvað að flytja mig og láta þessa sturtukoju eiga sig þangað til vandamálið er fundið ;).
Nonni kom svo kyndaranum af stað og öll hjörðin brosir allan hringinn á eftir, en þetta ætti að lagast þegar við fáum ný kerti í brennarann, vonandi verður það sem fyrst.
Um kvöldmat var komið óvenjugott veður og geysumst við áfram á 9-10sml ferð, hvort þetta er blíðan á undan storminum skal látið ósagt en þetta var orðin langþráð stund.
Mér finnst ég bara hafa verið duglegur að skrifa í dag og læt hér staðar numið.
Megi Guð almáttugur vaka yfir ykkur.
<°((()>< Hörður ><()))°>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi