..::Nammidagur á Hattinum::..
Síðustu nótt notuðum við til að lappa upp á trolldrusluna á meðan við kipptum á norðurhornið, þar átt rækjan að vera í þykkum lögum samkvæmt Gróu á leiti. Eitthvað hefur nú Gróu orðið fótaskortur á tungunni, og ég nagaði mig í handakrikana yfir því að hafa látið glepjast af sögunum sætu :).

Fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina mikla! Magnið á norðurhorninu var ekkert meira en þar sem við vorum áður, en það voru fleiri rækjur því verður ekki neitað. Einhvertímann hefði svona rækjurusl verið kallað hnerriduft eða neftóbak, en nú eru breyttir tímar og það þykir ekki tiltökumál að draga í þessu rusli á fleiriþúsundhestafla skipum með mörg troll í rassgatinu í einu. Ekki veit ég hver tilgangurinn með þeim veiðum, því mikið af þessum krílum fer bara í ruslið. Að vera eiða fjármunum tíma og peningum til að fiska og frysta eitthvað sem svo verður á endanum hent er skrítin pólitík, svo ekki sé talað um framtíð þessara rækjumiða ef þetta á að viðgangast til lengdar.

Uppi á Hattinum á grynnsta vatninu er hólf sem er lokað til verdunar smáræku, frá fyrsta jan til fyrsta júní ár hvert. Mín skoðun er orðin sú að ef það á að vera hægt að stunda arðbærar rækjuveiðar á Hattinum í framtíðinni þá verði að loka grynnsta vatninu allt árið fyrir öllum rækjuveiðum, og svipta þá veiðileyfinu sem ekki geta virt það, TAKK FYRIR!. Það þyrfti að laga þetta hólf aðeins til því það er nú ekki alveg í þeirri mynd sem okkur finnst að það ætti að vera, en hólfið er bara eins og við mátti búast þegar skrifstofublækur sem aldrei hafa séð sjó taka upp á því að setja niður vermdahólf. En í stórum dráttum er það í lagi svo ekki er þetta alslæmt hjá þeim :).

Það var sorglegt að horfa upp á það síðastliðið sumar þegar stóru gleyparnir lágu í smárækjunni og mokuðu henni upp inni í lokuðu hólfi, skítsama um það þótt verðið væri ekki neitt og þessi kríli væru það sem framtíð veiðanna byggðist á. En það er stundum erfitt að skilja hvaða sjónarmið ráða ferðinni.

En hvaða hvaða ekki má gleyma sér í því sem maður ekki fær breitt.

Veðrið! Jú það er febrúarblíða í dag 14m/s og sjóslampandi, meira að segja dollan getur dregið á móti veðrinu í dag.

Í tilefni góða veðursins var boðið upp á súkkulaðirúsínur og nammi í brú dollunnar. YfirvélsStrumpurinn kunni vel að meta veitingarnar og brosti allan hringinn hamingjusamur yfir veitingunum. Ég man bara eftir einum öðrum manni sem súkkulaði gat glatt svona mikið. Suma er aldrei hægt að gera ánægða á meðan súkkulaði eru nóg fyrir aðra, skrítin þessi veröld sem við lifum í :).

Bið Guðs engla að flögra yfir ykkur og passa að þið gerið engar vitleysur.

<º))))><.•´¯`•. Hörður .•´¯`•.><((((º>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi