..::Sumardagurinn fyrsti::..
Hvað er það í minningunni sem gerir það að verkum að maður muni eftir þessum degi?
Í mínu tilfelli er það að ég fékk reiðhjólið aldrei í hendurnar fyrr en á sumardaginn fyrsta, þetta var regla sem foreldrar mínir settu og þau stóðu við hana. Vissulega fannst mér þetta mikið óréttlæti því einhverjir voru búnir að drusla hjólunum út fyrr og farnir að hjóla, en eftir situr samt að þetta varð til að festa þennan dag í minningunni, ég get enn kallað fram í huganum mynd af því þegar ég hjólaði niður Hátúnið sæll og glaður á sumardeginum fyrsta ;). Pabbi var alltaf búin að taka hjólið í gegn yfir veturinn svo að það var klárt fyrir lögregluskoðun sem fram fór á reiðhjólum í byrjun sumars, manni þótti mikið til að fá skoðunarmiðann á hjólið.
En seinna átti hrifning mín á embættisverkum lögreglunnar á æskuslóðunum eftir að minnka, enda voru þau ekki alltaf eftir bókinni góðu þótt kannski ætti ég örlítinn þátt í að velgja blessuðu yfirvaldinu.
En það var heldur ekkert gaman að gera at nema þar sem einhver viðbrögð voru, maður var fljótur að átta sig á því hvar viðbrögðin voru í lagi ;).
Oft var maður búin að láta Jón á Barði standa úti í hliði sótrauðan allt kvöldið skimandi í allar áttir, maður beið bara í hvarfi þangað til hann lötraði að hurðinni og þá brunaði maður eina ferð á skellinörðunni upp eða niður tröppurnar fyrir framan húsið hjá honum, þetta dugði yfirleitt til þess að hann hékk tíu fimmtán mín í viðbót í hliðinu, þetta var svo endurtekið eftir þörfum og yfirleitt gáfumst við upp á undan karlinum :).
Mansi málari var einn góður,) það var rafmagnsstaur ofan við götuna sem úr lágu tveir vírar yfir í húsið hans, úr staurnum var stag upp í bakkann ofan við, það var alveg nóg að setjast á stagið og hossa sér þangað til að vírarnir tveir slógust saman, þá dó á kofanum hjá þeim hjónum. Þetta var alveg í leiðinni þegar maður var að fara heim í kvöldmat, og á þeim tíma virkaði þetta líka best. Það var alveg ótrúlegt hvað karlinn gat hlaupið og öskrað, en allaf féll hann aftur og aftur í gildruna :), líklega hefði verið nóg fyrir karlinn að láta þetta kyrrt liggja í tvö skipti þá hefði maður gefist upp. Þetta er svona eins og slökkvari, það er ekkert vit í að smella slökkvara ef ekkert gerist :):)..

En þá er það dagurinn í dag! Snikkaði til geretin í forstofunni og negldi þau upp.
Umfelgaði bílinn fyrir Ninnu og mæli loftþrýsting, hann var frá 16pci upp í 28pci svo að það var fært til betri vegar.
Fór einn sveitahring á hjólinu og kom við frammi á Tungum þar sem Ninna Ingunn og Soffía voru að viðra Lúlla, Guðný var einnig mætt á svæðið og tókst mér að ljúga hana upp á hjólið með mér smá bunu.

Þetta verður ekki lengra í dag enda ætlaði ég bara að skrifa nokkrar línur í dag :).
Vona að himnaföðurinn vermdi ykkur fyrir öllu illu og færi ykkur allt það ljós sem þið þurfið á að halda.....

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi