..::Vafasöm nafngift::..
Fyrir nokkrum árum var visst svæði hérna á hattinum skýrt skítahorn eða pokahorn, ástæðan fyrir þessari nafngift var stærðin á rækjupöddunum sem þar fengust.
Nú hafa miklar breytingar átt sér stað á þessari veiðislóð, svona heilt yfir.
Þar sem áður var stór og góð rækja er nú eintómt rusl. Ekki sé ég neina ástæðu til þess að vera að draga neitt sérstakt svæði út og skýra það skítahorn/pokahorn þegar öll bleyðan er orði helsjúk af smárækju, nær væri að kalla Hattinn skítahól nú eða pokahól, en þetta eru bara hugleiðingar mínar og sitt sýnist sjálfsagt hverjum og einum.

Og enn gengur sóttin yfir flotan og slær niður hverja skútuna á fætur annari, þetta fer að verða eins og í svartidauðanum um árið, tveir helltust úr lestinni í gær og þurftu að leita til hafnar vegna bilana, Taurus sigldi í land um miðjan dag í gær með bilaða grandaravindu, og svo kvaddi Borgin biluð í gærkvöldi en þar voru einhver vandræði með stefnisrör. Það er orðið frekar fámennt hérna á hattinum núna, margir eru í landi vegna landana eða bilana, og mér kæmi ekki á óvart þótt skipafjöldinn væri einhverstaðar 12-15skip í athugunaraugnabliki.

Dagurinn í dag hefur aðeins litast af sjúkleikum hér um borð, fyrst kvaddi skjárinn fyrir email og vinnslutölvuna okkur. Sem betur fer var til varaskjár sem er miklu betri en sá gamli sem var 15" en sá nýji er 20". Nú fyrst sér maður hvað sá gamli skjárinn var orðin þreittur og lasburða, kannski ekki furða að hann hafi sofnað svefninum langa :).
Reynir hjálpaði mér að kippa gamlaskjánum niður og setja þann nýja upp, en hann er ótrúlega laginn og lipur í höndunum enda lærður mublusmiður og búfræðingur :).
Ekki veit ég hvort skólinn nýttist honum betur í viðureignina við skjáina, en með passlegum skammti af Hólmara afskipta og aðfinnslusemi reddaðist þetta ;).
Sjálfsagt hefði þetta reddast án nokkurra athugasemda, en ég gat því miður ekki setið á mér frekar en aðrir Hólmarar.

Þegar við vorum að taka trollið í dag hífði ég bölvaðan gilsinn kloss í blökkina, "hviss bang" og blakkarhjólið lést samstundis, þetta kallaði á niðurtekt á blökkinni þar sem skipt var um hjól í henni, ég notaði tækifærið og lét pjakkana setja kengi á kjammana á blökkinni fyrir öryggiskeðju, en áður var þetta hálfgert húmbúkk og skítredding ala rússki. Reynir altmulig var náttúrulega fremstur í flokki í þessari aðgerð, þótti honum ég vera frekar snobbaður í frágangnum, spurði hvort ég héldi að ég væri á skemmtiferðaskipi? :).
En mér hefur alltaf þótt ljótt að sjá ónotaða keðjubúta og spottadrasl hanga hingað og þangað. Það verður eitthvað svo subbu og druslulegt, hver hefur ekki séð um borð í suma Rússadallana? Oj oj.

Nú er ég búin að þurrausa og hættur að pikka í dag....................

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi