..::Uppskeruhátíð og hálendisferð::..
Í gær fór ég og tók upp kartöfluræflana sem ég setti niður í sandkassann sem grislingarnir hættu að nota fyrir mörgum árum. Uppskeran kom mér á óvart og ef maður verður nettur á fóðrum ætti hún að duga nokkrum sinnum í matinn ;).
Merkilegt nokk því ekki var vandað til útsæðisins eða bruðlað með áburðinn í þessa tilraun, kartöflurnar komu frá Brynju og fóru beint úr ísskápnum niður í jörðina, áburðurinn er ekki annar en sá sem kettirnir í nágrenninu dældu í sandkassann fyrir mörgum árum eða þangað til að ég gyrti yfir sandkassann með rækjuneti, það var það eina sem dugði, við vorum búin að reina allskyns húsráð frá vinum og vandamönnum til að losna við þessa kattaskítsáníðslu en það virkaði ekkert nema netið.
Svo eru sumir að segja að kettir séu vitlausir, ég púffa á það, allavega hafa þeir vit á því að skíta allstaðar annarstaðar en í garðinum heima hjá sér!.

Og dagurinn í dag, byrjuðum á heilun í Bjarmanum og svo var boðið til sláturveislu hjá Kalla, ég kaus að sitja hjá og notaði tímann til að laga gömlu tölvuna aðeins.
Mér hefur aldrei líkað slátur og lifrarpylsu hef ég aldrei étið oj, samt át maður rúsínuslátrið í den tid þegar búið var að steikja það upp úr sykri, og súrt í sveitinni með mjólkurgraut, en þetta var á þeim tíma sem maður hafði ekkert val!
Hvað er annars slátur annað en blóð sem hrært er saman við mjöl og fituköggla, svo er þessari drullustöppu mokað inn í rolluvambir og saumað fyrir. Ég segi nú bara, sem betur fer veit maður ekki alltaf hvað maður er að éta, en sláturferlið þekki ég því miður :(.
Þegar sláturveisluhjásetunni lauk renndi ég heim og spennti á mig hjólamúnderinguna, svo var sparkað í gang og stefnan tekin inn Eyjafjörð, veðrið var frábært í einu orði sagt.
Ég hjólaði inn allan fjörð og upp úr botninum með von um að komast inn í Laugarfell, en því miður voru svo miklir skaflar á veginum að ég nennti ekki að standa í einhverju veseni til að komast þangað inneftir, sjálfsagt hefði maður getað sneitt meðfram með því að fara út úr slóðanum en þá hefði maður skilið eftir ljót ör og því snéri ég frekar við en að standa einhverju slíku. Ég var líka einn og þá er maður yfirleitt ekki að leggja út í neina tvísýnu. Þarna voru einhverjir línumenn á vörubíl jeppum og traktor og sögðu þeir að þeir væru búnir að festa vörubílinn nokkrum sinnum á leiðinni :(.
Ég snéri bara við og rúllaði til baka og linnti ekki látum fyrr en ég var komin aftur heim á Dalvík, 220km að baki og ég orðin ansi þreyttur í rassinum þegar búið var að leggja hjólinu aftur í bílskúrnum ;).
Í kvöld ætla ég að morra fyrir framan imbakannann og gúffa í mig gúmmelaði.
Vona að þið eigið góða helgi.................yfir og út.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi