..::Aðfangadagur::..
Ekki get ég nú sagt að þessi aðfangadagur hafi verið mjög Jólalegur, en samt verður hann örugglega mér minnistæður.

Jólasveinninn missti sig í nótt og dældi á mig sælgæti í ókristilegu magni, förum ekki nánar út í þá sálma ;).

Í morgun vorum við staddir utan við Nouakchott höfuðborg Máritaníu þar sem við biðum eftir löndun, því fylgdu ýmsar útréttingar í síma og talstöð eins og lög gera ráð fyrir, en nóg um það. Klukkan 1500 byrjum við svo að leggjast utan á fraktskipið og á sama tíma semdum við vinnslustjórann frá okkur á léttbát til að sækja 3 menn í land, ekki vildi betur til en að léttbáturinn rétt komst 200m frá okkur og þá stoppaði vélin í honum, ekki var neitt annað í stöðunni en að klára fraktarann og huga að björgun fyrir strákana okkar í léttbátnum. Það var blíðuveður og ég hafði ekki miklar áhyggjur af strákunum þótt vissulega væri ekki spennandi að vita af þeim þarna bjarglausum á reki, en þeir voru í talstöðvarsambandi við okkur og með GPS staðsetningartæki svo að það var ljóst að við myndum ekki tína þeim, en spurningin var hvernig við næðum þeim. Ekki var hægt að fá neinn bát úr landi til aðstoðar og við vorum farnir að spá í að setja stóra björgunarbátinn á flot, verkefni sem var ekki beint á óskalistanum, en þá sé ég útundan okkur lítinn bát sem ég kannaðist við, þetta er aðstoðarbátur við Litháensk skip sem hérna stunda veiðar. Ég fékk loft (loftskeytamanninn okkar) til að kalla hann upp og greina þeim frá vandræðum okkar, þeir svöruðu strax og voru tilbúnir að fara að sækja strákana, við gáfum þeim upp stað og þeir burruðu af stað og pikkuðu strákana upp og komu með þá til okkar, þetta leystist ótrúlega vel. Í öllu þessu ferli hafði gleymst að huga nokkuð að einhverjum jólamat, 5min fyrir sex kallaði ég svo á strákana mína og spurði þá hvort þeir ætluðu ekki að koma í mat, þeir voru þá allir á fullu að vinna, ég spilaði svo kirkjuklukkurnar í kallkerfinu þegar jólin voru sett inn og svo fórum við í mat. Útgerðin hugsar vel um okkur og var búin að senda um borð Malt og Appelsín Ora grænar baunir Nóa konfekt og Hangikjöt, en þar sem við vorum frekar seinir fyrir þá var bara borðaður venjulegur kvöldmatur en höfðum með Malt og Appelsín.
Læknirinn var svo í mættur í borðsalinn með Jólasveinahúfu og útbýtti í boði útgerðarinnar einni mackintosh dós á hvern og einn í áhöfninni, þessu var vel tekið og var ekki annað að sjá en að allir væru glaðir með sitt.
Að vísu eru ekki jól hjá Múslimunum og Rússarnir okkar halda ekki Jól fyrr en 7janúar .
Eftir kvöldmatinn settumst við svo niður í setustofuna okkar og borðuðum konfekt í ómældum skömmtum :).

Í kvöld var ég svo í góðu sambandi við alla mína og var ofsalegur munur að vera í svona góðu símasambandi, og ekki spillir fyrir að geta farið á netið og skoðað myndirnar hjá þeim sem eru duglegir að setja inn :).

Klukkan níu í gærkvöldi fór ég svo niður í klefa og opnaði alla jólapakkana mína, þar fékk ég margt fallegt, en það var frekar einmannalegt að sitja einn niðri í klefa og opna pakka, á eftir hringdi ég svo heim og talaði við mína ;).
Kvöldið hjá okkur endaði svo á því að við settumst niður og horfðum á DVD mynd sem ég fékk í jólagjöf og borðuðum enn meira konfekt og drukkum Malt og Appelsín,
Í hádeginu á morgun ætlum við svo að hafa Hangikjöt uppstúf grænar baunir og alles :).

Klukkan var orðin ansi margt þegar ég skreið í kojuna, vona að þið hafið öll notið dagsins, Guð geimi ykkur hvar sem þið eruð niður komin.

PS: ég setti inn nokkrar myndir sem eru hérna
(Jól á sjónum)


PSS: og Guðný var líka búin að setja eitthvað inn af myndum hérna
Jólin heima

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi