..::Annar í Jólum::...
Þetta er búin að vera ágætur dagur eins og þeir flestir ;), löndunin hefur gengið þokkalega í dag og veðrið hefur leikið við hvurn sinn fingur, logn og mistur svo að sólin hefur ekki bakað okkur þennan daginn, samt hefur verið heitt en ekki óþægilega eins og oft er þegar sú gula gapir yfir okkur.

Ég ætlaði að taka daginn rólega og nota tíman til að glugga í eitthvað af bókunum sem ég fékk í jólagjöf, en eitthvað skolaðist það til í forgangsröð verkefna dagsins því klukkan var orðin átta áður en ég vissi af og ég ekki farin að líta í bók ;), en það gerði svo sem ekki mikið til því ýmislegt annað var bardúsað, ég gerði td tilraun með að setja inn videoclip á myndasíðuna, það gekk fyrir rest en einhverra hluta vegna urðu þau allt öðruvísi en þau voru í tölvunni hjá mér áður en ég hlóð þeim niður á netið, en ég þarf eitthvað að spá betur í því í hverju það liggur. Ég setti tónlist undir á öðru vídeoinu en var ekki með hátalara í tölvunni svo að ég gerði mér ekki grein fyrir hvernig þetta hljómaði, fyrr en ég skoðaði þetta í annarri tölvu á netinu, ég hefði mátt eyða út hljóðinu sem var fyrir. Ég áskil mér samt rétt til afsakana þar sem ég hafði ekki hátalara og ég var að opna þetta windows movie maker forrit í fyrsta skipti :).
En videoin eru inn á myndaalbúminu og þið verðið sjálf að dæma hvernig til tókst.

Einhvern vegin er það greipt í minninguna að maður hafi alltaf farið á Jólaball á Norðfjörð á miðnætti annars í jólum, það er kannski vitleysa en þetta situr í mér.
Einhver tíman í einni af þessum ferðum var mikið fjör í rútunni upp skarðið, mikið var drukkið og sungið “de var brennivin i flasken......o.s.f.v” enda verið á leið á dansleik, en öll þessi drykkja kallaði á þvaglosun hjá liðinu, rútubílstjórinn var ófáanlegur til þess að stoppa og hleypa liðinu í pissstopp.
Þessi rúta var þannig að sætin sitt hvoru megin voru á upphækkun en milli sætanna var gólfið tekið niður, í þessu tilfelli hefði mátt flokka þessa rás undir flór.
Rútugarmurinn juðaðist stynjandi upp Oddskarðið og segir ekki mikið af ferðum hennar fyrr en hún sígur yfir blindhæðina í Oddskarðsgöngunum, þá snögglega breyttist vatnshallinn og gulur vökvinn geystist fram eftir flórnum og fossaði niður að hurðinni fremst. Ekki man ég hver var bílstjóri í þessari ferð eða hvernig þetta fór en sennilega hefur bílstjórinn hugsað farþegunum þegjandi þörfina. Ekki man ég lengur hvort ég tók þátt í uppfyllingu á þessu hlandlóni sem byggðist upp á leiðinni upp skarðið en ég myndi ekki sverja fyrir það, en ég man alltaf eftir því þegar lónið ruddist fram flórinn við mikil fagnaðarlæti farþeganna ;).
Þetta var kannski útúrdúr en tengingin við annan í jólum er samt til staðar og á ekkert verr við núna en einhvern annan tíma.

Hvatning mín til þess að fá mína dyggu lesendur til að kvitta fyrir komuna hefur ekki skilað sér að nokkru marki, kannski er fólk svona hógvært eða bara feimið, en hvað sem það er þá þætti mér vænt um að þið kvittuðuð, ég er ekki að biðja um nafn og kennitölu þið megið kvitta undir dulnefni ef þið treystið ykkur ekki til að standa undir nafni.

Og svo er komið að getrauninni, en hún er svohljóðandi.
Af hverju er myndin og til hvers er þetta notað??


Og þetta verða lokaorðin í dag, vona að Guðs englar gefi sér tíma til að líta til með ykkur og passa upp á að þið hratið ekki út af beinu brautinni, því það getur verið ansi hátt niður á jafnsléttu :).

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Ekki ætla ég að láta mitt eftir liggja með kommentið. Það hef ég alltaf sagt um ykkur "útsæðisætur" að þið eruð engum líkir!! En böllin gátu samt oft verið fjörug. Ég man þó að á mínu síðasta balli í Valhöll, þá fékk ein "útsæðisætan" mikla þörf fyrir að láta ljós sitt skína og lét mig hafa einn vænan á vinstri vangann, en hann var með glas í hendinni og splundraðist það og einhverjar glerflísar fóru í augað á mér og þurfti að hreinsa það út. Þær eru sem sagt ekki allat ljúfsárar minningarnar! Mér datt þetta svona í hug þegar ég las þennan pisitil þinn.
Sendi þér og Reyni bestu jólakveðjur.
Nafnlaus sagði…
Hef ekki græna glóru um hvað er á myndinni,en hægt væri að koma nokkrar skondnar sögur af jólaballsferðum þínum á Norðfjörð,en ég ætla samt ekki að hrella þig með þeim.
Hér er gott veður í dag og Pabbi þinn ákvað að vera bara áfram í jólafríi (undir sæng til að byrja með :-)
Nafnlaus sagði…
Já félagi það var vandlifað á þessum árum ;), og það þurfti ekki opna dansleiki til átaka, þetta byrjaði snemma.
Einhvertíman kom ég heim með blátt auga af skólaballi á Norðfirði ;), þannig að þessi villingsnáttúra hefur greinilega verið á báðum endum.
En sem betur fer lifa þessar sögur enn, kannski vegna þess að einhverjir átu útsæðið :).
Nafnlaus sagði…
Þetta mun vera sónarauga.
Nafnlaus sagði…
Gleðilega hátíð félagi
eru þetta nokkuð austfirskar sjóbxur með punghlíf ???? kv pall k
Hörður Hólm sagði…
Myndin er af Simrad FS20/25 trollsónar, græja sem við notum til að sjá lögun og staðsetningu á veiðarfærinu og hvort einhverjir fisktittir ráfa í það.

Ég sé ekki annað en að faðir minn verði vinningshafi í þessari getraun.
Verðlaunin eru ekki af verra taginu.
Knús frá mér þegar ég kem næst til Íslands :).
Hörður Hólm sagði…
Palli þú er seigur, þetta var bara næstum því rétt hjá þér :), og það sýnir sig að það borgar sig að reyna því fyrir vikið þá lentirðu í öðru sæti :P.

Vinsælar færslur af þessu bloggi