..::Stiklað á stóru::..
Ég ætla að byrja á því að óska öllum gleðilegs árs og þakka fyrir allt gamalt og gott í gegnum tíðina, vonandi heldur áfram að vera gaman hjá okkur öllum í framtíðinni.
Við verðum bara að passa okkur á því að gleima ekki barninu í okkur og reina að sjá spaugilegu hlutina í lífinu, þeir eru allstaðar, við þurfum bara að veita þeim athygli:).

Árið hjá mér hefur verið ágætt, ég byrjaði Janúar á 24m löngum Snuddupung frá Dalvík, en í Febrúar var ég svo komin til Afríku á 105m langan frystitogara, sem ég hef verið á síðan ;) með reglulegum hléum.

Ég endurnýjaði mótorhjólið og fjárfest í nýju hjóli á árinu KTM EXC 525 og svo keyptum við feðgarnir okkur eitt lítið leikhjól Thumpstar 110.
Guðný keypti handa okkur kerru svo við feðgarnir gætum tekið leikföngin okkar með í ferðalög, og nýttum við okkur það aðeins.

Sólpallurinn kláraður að mestu, það rétt hafðist fyrir fiskidag ;), Kristbjörn trésmiður var mér innanhandar í því og reddaði því sem reddað var, annars hefði ég sjálfsagt ekki komið þessu upp í sumar ;).

Við fórum eina viku í bústað í Svignaskarð í sumar og tókum við feðgar hjólin með okkur og hjóluðum aðeins um í Borgarfirðinum, það var gestkvæmt hjá okkur í bústaðnum og var þetta hin skemmtilegasta ferð, ég hjólaði nokkra nýja slóða og kynntist nýjum stöðum í Borgarfirðinum sem gaman var að sjá.
Ræturnar liggja þarna því bæði Afi og Amma í móðurætt eru úr Borgarfirðinum.

Eina viku fórum við hjónin til Kaupmannahafnar í sumar og tókum Einar Már með okkur, þetta var alveg frábær ferð í alla staði og upplifði ég barnið í mér enn og aftur ;). Tívolíin þarna eru frábær og auðvitað varð ég að prufa öll tæki sem ég sá, en það þurfti að safna svolitlum kjarki áður en þau verstu voru sigruð.
Við notuðum tímann þarna vel og gerðum heilmargt, t.d fórum við í dýragarðinn og einhver söfn skoðuðum við, nú svo var bara chillað og borðaður góður matur og notið þess að vera til.

Baðherbergið var tekið í nefið á árinu og ég rétt náði að klára það núna í síðasta fríi en það verk tók í heildina 5mánuði, það var ótrúlegt hvað Guðný var róleg yfir öllum þessum seinagangi, en einhverstaðar er sagt að allt gott gerist hægt og ég reyndi til hins ýtrasta að benda henni reglulega á það ;).

Á haustdögum fórum við Guðný til Reykjavíkur í helgarferð og gistum á Hótel Loftleiðum. Veðrið hrekkti okkur og þurftum við að fresta brottför um einn dag en komumst suður á endanum.
Í borginni áttum góðan tíma sem notaður var í að heimsóknir búðarráp og til að tryggja fjölskylduböndin.

Hjördís flutti suður á árinu og hefur verið þar síðan í sumar, það varð tómlegt þegar hún flaug úr hreiðrinu, en hún var að vísu búin að búa inn á Akureyri svolítinn tíma áður en hún fór suður, svo það var aðeins búið að aðlaga okkur, en samt var hún eitthvað svo langt í burtu þegar hún var komin suður.
Hún keypti sér nýjan bíl í sumar Toyota Yaris og ekur um allt á honum ;).

Einar Már hefur það eins og blóm í eggi heima hjá foreldrunum, hann er duglegur að djöflast á Hjólabrettinu Snowskatinu og hvað þetta nú allt heitir.
Svo er hann að spila á gítar ásamt því að spila mikið af tölvuleikjunum, en það er það sem virðist fylgja flestum unglingum í dag.

9 desember fór ég svo af stað á sjóinn aftur og hef verið á hafinu bláa síðan, þetta árið eyði ég bæði Jólum og Áramótum á hafinu, en það verður fleira að gera en gott þykir og einhverjir verða að vinna á þessum tíma.
En hún hugsar vel um okkur útgerðin og passar upp á að við höfum allt til alls hérna, svo maður þar ekki að kvarta yfir því að ekki sé búið vel að okkur.

Nú hef ég stiklað á stóru um árið, og sjálfsagt hef ég gleymt mörgu :):).
Margt af því sem við höfum verið að gera á árinu hefur verið fest á minniskort og því síðan spýtt á netið, það er í myndaalbúminu okkar sem öllum er opið :).

Þakka ykkur fyrir allar gömlu góðu stundirnar á liðnum árum og vonast til að hitta og heyra í sem flestum af ykkur á nýja árinu.
Ég vona að þið hafið öll átt ánægjulegt ár og bið Guð og gæfuna að fylgja ykkur um alla framtíð.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Hæ og gleðilegt nýtt ár;) góðan dag segir maður kannski líka, vildi bara skilja eftir nokkur spor ég elska þig og sakna þín K.v Hjördís;*

Vinsælar færslur af þessu bloggi