..::Í friði og ró úti á Sjó!::..
Jæja þá er gamla árið fokið burt, það fór ekki með hvellum og eldglæringum hjá okkur, kannski sem betur fer ;), en við náðum samt að fylgjast með áramótaskotunum heima á vefmyndavélinni á Akureyri, það var skásta vélin í þetta verkefni.
Já gamlársdagur leið hjá okkur í friði og ró úti á sjó eins og þeir syngja hljómsveitin Roðlaust & Beinlaust, og enduðum við daginn á því að gúffa í okkur Konfekti í boði útgerðarinnar þangað til maður stóð á blístri.

Í morgun vaknaði maður svo endurnærður eftir nætursvefninn, Reynir var búin að vera á fullu í að undirbúa Hangikjötsveislu tvö, en nú höfðum við hangikjötið kalt og finnst mér það ekki síðra þannig, í þessari veislu gátum við haft þetta ögn jólalegra þar sem við vorum komnir með jólaskraut og jólaservíettur ekkert smá flott hehe.

Það er nú varla að maður trúi því að það sé komið 2007 en maður verður víst að sætta sig við það eins og hvert annað hundsbit, ótrúlegt hvað árin spýtast áfram, mér finnst svo stutt síðan ég var að bíða eftir 2000.

Ég var ánægður með Biskupinn okkar í dag þegar ég heyrði ræðuna hans, og var í flestum atriðum sammála honum, t.d með umferðarmenningu okkar Íslendinga og hvernig þetta Íraksmál allt er komið "út um læri og maga" eins og kerlingin orðaði það svo vel um árið ;).
Það væri að mínu viti þjóðþrifaverk að reyna að slá aðeins á stressið í umferðinni, hvar er eiginlega það sem kallað er tillitssemi lengur? Það hefur einhverstaðar tínst í öllum æðibunuganginum, stressið er orðið þannig að fólk má varla lengur vera að því að stíga á bremsuna, en flautan er ofnotuð.
Mér finnst að það mætti skoða það að hafa tvær flautur í bílum, eina í húddinu og aðra stóra í hnakkapúðanum hjá bílstjóranum,en þær yrðu náttúrulega að vera samtengdar, það yrði þá kannski til þess að fólk notaði þær ekki nema í neyð.

Læt þetta verða lokaorðin í dag.
Megi allar góðar vættir vitja ykkar og leiðbeina í umferðinni sem og annarstaðar.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi