..::Teflt við Pá....::..
Í dag var ég að gramsa í einni skúffunni í brúnni og fann þetta líka fína taflborðið ásamt taflmönnum, þetta tafl var greinilega með mikla reynslu því að sumir taflmennirnir voru heimatilbúnir úr gúmmípjötlu og pappír en voru fínir staðgenglar fyrir þá sem horfið hafa úr upprunalega liðinu.
Þessi Hvalreki á fjörur mínar var til þess að ég dreif mig í að leita uppi kunnáttumenn í þessum mæta leik, ekki þurfti að leita lengi og áhuginn var greinilega til staðar, Reynir var meira að segja með taflklukku með sér.
Læknirinn var nú sjanghæjaður í hraðskák við Reyni og var ekki annað að sjá en að þeir væru á svipuðu róli í taflmennskunni. Það var gaman að fylgjast með þeim félögum og rifjaðist upp í huga mér sú mikla elja og vinna sem minn gamli skólastjóri lagði í taflmennsku og að troða þessu í hausinn á okkur, ekki vorum við nú alltaf sáttir við hvorn annan en ég lét mig nú samt hafa það að tefla eitthvað þegar ég var krakki, ég bjó að þeirri reynslu í dag þegar ég raðaði mönnunum upp, og ég er ekki frá því að ég kunni mannganginn ennþá og einhverjar reglur, en ég verð sjálfsagt seint talin skákmaður.
Læknirinn sá samt aumur á mér í kvöld og mætti með lítið taflborð sem innihélt agnarsmáa taflmenn sem festust á taflborðið með seglum, svo tefldi karlinn við mig eina skák, hún endaði með jafntefli en ég hef læknirinn sterklega grunaðan um að hafa haft brögð í tafli svo að ég tapaði ekki :).

Þetta var eitt það markverðasta sem á daginn dreif hjá okkur, svona fyrir utan allt þetta venjulega sem lítið breytist.

Jú alveg rétt einu er ég að gleyma, Bátsmaðurinn ásamt einum vélstjóra fóru í það í dag að festa niður klósettið hjá mér, en það var búið að vera laust lengi og vaggaði til og frá þegar ég sat á því eins og hefðarfrú og sprændi.
Þeir leystu þetta verkefni eins og þeim einum er lagið og var ég stoltur fyrir þeirra hönd þegar verkefninu var lokið, nú get ég setið áhyggjulaus á náðhúsinu og teflt við Páfann, eða sprænt án þess að allt vaggi og velti undir mér :).

Mynd dagsins er af Reyni og Lækninum í skákeinvíginu, þeir töpuðu báðir eða unnu báðir, allt eftir því hvernig við lítum á það ;);).

Látum þetta nægja í dag.
Vona að Guðs englar vaki yfir ykkur og veiti ykkur alla þá umhyggju og gleði sem þið ráðið við að taka á móti.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi