..::Taxinn::..
Það var rólegt hjá okkur í nótt veiðilega séð, fullt rör frá miðnætti til tíu í morgun en þá tókum við tvær stuttar prufusköfur áður en við fórum í Sjóla.
Sjóli var mættur til Nouadhibou og beið eftir okkur við hengdum okkur saman um kvöldmatarleitið í kvöld, og síðan hefur allt verið á fullu í uppskipun.
Matti Sigursteins er skippari á Sjólanum en hann leysti mig af á Erlunni forðum daga, við höfum þekkst lengi og alltaf gaman að hitta gamla kunningja, hann rétt náði að líta upp úr fraktstressinu og kíkja á mig í nokkrar mínútur núna rétt fyrir miðnættið.
Hann var hífður á milli í búri sem við köllum Taxann, en það er sá háttur sem hafður er á hérna þegar koma þarf mannskap á milli skipanna, þetta er ekki ósvipað fuglabúri og svínvirkar í þetta verkefni.

Það var frekar kalt hérna seinnipartinn þegar við komum, ekki nema 20°C og ég sá ástæðu til þess að fara í peisu, en hitinn var 29°C suður við Nouakchott þar sem við vorum í gær, en svo leit ég á hitann á Akureyri og sá að það voru þar -14°C svo ég veit ekki hvað maður er að kvarta yfir tuttugu gráðum ;).

Mynd dagsins er af póstbátnum okkar (Sjóla) þar sem hann er að koma færandi hendi, þetta var einu sinni einn af stærstu togurum Íslenska flotans og þótti þetta mikið hafskip, en hann er ekki mikill að sjá utan á þeim dösum sem hann er að þjónusta í dag.

Annars er svo sem ekki mikið að segja, ég eyddi kvöldinu á skipskrananum við hífingar, það vantaði mann á kranann svo að ég skellti mér í það og var miklu betri í því en skákinni ;).

Ég er að hugsa um að láta þetta nægja í dag.
Munið svo að eitt lítið bros eða klapp á bakið getur gert kraftaverk í samskiptum fólks. Hrósið vill stundum gleymast þótt það gleymist ekki að agnúast út í það sem miður fer, ég mæli samt frekar með að þessu sé snúið við því það gefur lífinu lit, ástæðulaust að horfa á allt í svarthvítu ;).

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Já satt er það litill er hann utan á ykkur her er sama frostið en fallegt veður og halastjarnan sjest mjög vel.Gangi þér vel kveðja úr Hraunbænum
Nafnlaus sagði…
Heldurðu að það sé ekki kominn snjór og þörf á að moka,mig blóðlangar að taka törn en er að reyna að hemja mig Því bakið er ekki orðið nógu gott þó ég sé mun betri.Vona að sólin haldi áfram að skína á ykkur gott gengi. ástarkveðja úr Kríulandi

Vinsælar færslur af þessu bloggi