..::Mestir og bestir!!::..
Merkilegt hvernig fréttaflutningur getur stundum verið, t.d finnst mér athyglisvert hvernig fréttirnar af aflaverðmæti Engeyjar hafa verið matreiddar ofan í mörlandann undanfarið og sá samanburður sem er í fréttum um hvað skipið hafi verið að gera gott á síðasta ári.
Það dettur samt engum fréttamiðli í hug að minnast á það að skipið var meira og minna með fleiri skip í vinnu til fiska fyrir sig á meðan önnur skip sem höfð eru til samanburðar þurftu flest að hafa fyrir öllum veiðunum sjálf.
Ég held að það sé ekki mikil kúnst að setja einhver aflaverðmætismet ef maður getur bara legið á krók undir Garðskaga og beðið eftir að önnur skip fyrirtækisins komi og dæli aflanum um borð svo hægt sé að halda uppi fullri vinnslu, en einhverra hluta vegna er þessu slegið upp í fréttamiðlum þannig að engin hafi tekið þátt í þessu nema viðkomandi skip.
Hákon var númer tvö í þessari aflaverðmætiskeppni og var hann með 1170milj/fob en títt umrædd Engey var með 1451milj/fob, en hvað fiskuðu skipin sjálf af þessu verðmæti????. Í réttmætum samanburði hef ég trú á að Hákon snýti Engey, en svona er þetta bara í fréttum, ekki alltaf sama matreiðslan, og sauðsvartur almúginn gleypir í sig það sem smakkast best þótt að sé ekki alltaf hollast ;);).
Þegar ég var krakki heima á Eskifirði þá lá stórt Norskt bræðsluskip úti á firði, skipið hét Norglobal og bræddi loðnu, og loðnuflotinn kom í löngum bunum og dældi í þetta skip sem svo bræddi loðnuna.
Ég er nokkuð viss um að Norglobal var með hæsta aflaverðmæti allra skipa á Íslandsmiðum það árið, ekki ósvipað dæmi og með Engey.

Í dag fóru svo fram mannaskipti hjá okkur og margir voru að fara í frí en aðrir að koma, flestir voru eins og litlir krakkar sem bíða eftir að komast inn í leikfangabúð, við vorum farnir að taka vel eftir spennunni í gær.
En svona er maður sjálfur þegar það fer að nálgast fríið ;).

Mynd dagsins er tekin í mannaskiptunum........

Já þetta er það helsta sem ég hef að segja í dag.
Vona að þið hafið það öll sem best :).

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi