Blíðuveður á þúfunni í dag, og einhver veiði en mér finnst hún ekki vera eyrnamerkt okkur svo að betur má ef duga skal.
Trollið okkar á stórafmæli 21 Maí næstkomandi en þá verður það 5ára svo að það er kannski ekki í tísku lengur, en nú á að ráðast gegn því og skipta út haug af neti í nótt.
Við erum að fara að ná í stýrisviðnámið í Lóm 2 og svo þarf Nonni eitthvað að stoppa höfuðmótorinn svo að það er lag að fara í trolldrusluna.
Kiddi er búin að vera allan seinnipartinn að skera til stykki sem fyrirhugað er að setja í trollið í nótt.
Svo verðum við bara að treysta á Guð og lukkuna um að við séum að gera rétt ;), en maður getur alltaf falið sig bak við orðtiltækið “sá sem aldrei gerir mistök gerir aldrei neitt!” ef þetta virkar ekki.
Ég talaði við Bjössa vin minn á Andvara í dag og sagðist hann hafa verið sólarhring á reki meðan gert var við aðalvélina en nú var allt farið að snúast hjá honum aftur sem betur fer, já það eru skin og skúrir hjá fleirum en okkur ;).
Ekki skilaði sér mikið af heimspólitíkinni til okkar félaganna en það gerir kannski ekki svo mikið til því að það er jú ekki mikið sem við getum gert í því annað en að velta okkur upp úr því bulli sem þar fer fram.
Það er kannski bara betra að vita ekki neitt og geta einbeitt sér að pólitík Dollunnar, hérna er þetta eins og í Íslandspólitíkinni það er bara einn sem ræður.
Hvernig var þetta nú aftur “sælir eru fávísir”? eitthvað þannig, maður ætti að vera nokkuð sæll er það ekki?
Og nú eru páskarnir að koma með allri þeirri óhollustu sem því fylgir, nú hugga flestir Íslendingar sig á súkkulaði og ofáti. Verði þeim það að góðu!.
Við á Dollunni höldum áfram í svínakjöti kjúklingum og nýsjálenskum kótelettum, Kiddi fær alltaf fjórar kótelettur í hádeginu og annan skammt að kvöldi, hann er að vísu hættur að éta í hádeginu og lái honum hver sem vill, það eru jú takmörk fyrir hvað hægt er að borða af kótelettum.
Þetta verður ekki lengra hjá mér í dag.
Bið Guðs engla að bægja frá ykkur öllu illu og sáldra yfir ykkur hamingju ryki í nótt.
<°((()>< Hörður ><()))°>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi