Ekki eru allar ferðir til fjár, það sannreyndist síðastliðna nótt þegar næturholið var hífað. Aflinn var 0.0kg af rækju og tvær olíutunnur í grindinni, jamm þetta var bara eins og í Andrés Önd nema það vantaði bara bíldekkið og stígvélið ;).
En það þíðir víst lítið að síta það og það verður að taka þessi hol líka þó þau séu manni ekki að skapi ;).
Næsta hal slapp svo fyrir horn svo að það lyftist aðeins brúnin á manni.
Ekki var svo ljósið að flýta sér á þriðja holi dagsins, og má segja að það hafi verið eins og meðganga hjá fíl og ekki útséð hvort eitthvað er að myndast ,en þolinmæðin þrautir vinnur allar og á endanum náðist að mæða þessi ljós fram. En maður var orðin ansi framlár og þreyttur á sálinni.
Það er alveg með ólíkindum hvað þessi nauðaómerkilegu gulu og rauðu ljós geta gert manni gramt í geði eða glatt mann allt eftir hvor liturinn logar ,).
Jón vélastjóri er búin að vera svartur upp fyrir haus i fucking tjökkunum sem við ætluðum að nota til að stoppa hleraóhemjurnar, bakborðshlerinn náði að berja hekkrúlluna af sín megin í gærkvöldi og sló svo endaleguna á haf út á eftir svona til að ljúka verkinu með stæl.
Jón ætlar ekki að gefast upp og nuðast í þessu tjakkarusli endalaust þrár eins og gömul garðrolla. Það á ekki að gefast upp þótt hann verði að skríða yfir grindahliðið ,).
Mér skilst að það sé búið að finna nýjar og sterkari búkkalegur í keflið sem slitnaði upp í gær. Þær fundust í Nova Scotcia og koma víst til Nufí í dag og fara úr með næsta dalli.
Við verðum sjálfsagt eins og illa aldir hundar á eftir hverju skipi á hattinum að sækja aðföng í hitt og þetta sem aflaga hefur farið hjá okkur, en það verður víst fleira að gera en gott þykir í þessu eins og öðru.
Það er nóg að gera hjá genginu okkar í landi, og mér kæmi ekki á óvart þótt þar féllust mönnum hendur þegar mest gengur á hjá okkur, en þetta eru veraldarvanir menn og ég hef ekki séð nein merki þess að þeir séu að gefa sig á límingunum.
Það þyrfti að fá uppskriftina af þessu lími, maður gæti sjálfsagt orðið ríkur á einkaleyfinu að þeirri uppskrift ;) lím sem ekki gefur sig eða þannig ;).
Það er komið þokkalegt veður á okkur þurfalingana og kortið fyrir morgundaginn lofar góðu svo að við horfum björtum augum til komandi daga.
Sumarið hlýtur að ná að brjóta hlekki vetrarins af sér og sigra áður en varir, við bíðum spenntir eftir úrslitum úr viðureigninni.
Ég verð að fara sníkja rolluklippurnar út úr kokknum og slá nýræktina á andlitinu á mér, maður er að verða eins og æðsti strumpur, en strumpurinn hefði líklegast geta soðið eitthvað seiði til að sporna við kláðanum sem af þessum hárvexti hlýst ;).
Mér finnst ég vera búin að vera svo duglegur að skrifa að ég held að ég geti hætt með góðri samvisku í dag.
Vona að englar Guðs vaki yfir ykkur hvar og hver sem þið eruð, og munið að öll erum við jöfn. Hjá Guði verða fyrirlitningurinn róninn og misindismaðurinn að sitja við sama borð. Þar er engin yfirmannamessi.
<°((()>< Hörður ><()))°>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi