Drullubræla. Það var drullubræla í allan gærdag og það er enn skítaveður hjá okkur með tilheyrandi velting og aflaleysi.
Í dag þegar við vorum að taka trollið þá brotnaði önnur búkklegan á nýja keflinu svo að það sleit sig laust af búkkanum og hentist aftur á dekk, sem betur fer varð engin fyrir fljúgandi keflinu og allir sluppu ómeiddir, en þetta var bölvað rassgat að missa þetta kefli því að það var svo miklu fljótlegra að taka trollið og léttara að vinna á dekkinu meðan það var í lagi ;(. En það virðast vera einhver álög á dollunni og það er ekki nóg með að gamlir hlutir bili, heldur er alveg undir hælinn lagt hvort nýir hlutir virka hérna um borð, já þetta er með afbrygðum furðulegt og satt best að segja hef ég aldrei komið í skip með svona óhreina sál.
Einhvertímann hefði verið sagt að það væru álög á þessu en ég veit ekki undir hvað þetta flokkast nú á dögum, líklega ólukkufleytu.
Maður fer að verða alveg ráðþrota gegn allri þessari ólukku og veit ekki hvað kemur næst, það kemur manni ekkert orðið á óvart, og hér um borð eru lögmál Murpys í fullu gildi ;).
En hvað þíðir svo að vera að væla þetta yfir því sem maður ræður ekki við? Sjálfsagt ekki neitt, maður verður bara að vona að þetta gangi yfir eins og hver önnur pest og minnast orða mannsins, “þegar hlutirnir eru orðnir svo slæmir að maður trúir því ekki að þeir geti orðið verri, þá eru þeir líklega að byrja að verða betri”.
Það verður svo að koma í ljós á eftir hvort að nýja fína trollaugað hefur orðið fyrir einhverju taugaáfalli í látunum þegar keflið kvaddi undirstöðurnar, trollaugað hefur ekkert sýnt eftir að trollið fór út síðast, það var hættulega nálægt slysstaðnum. En það kemur allt í ljós þegar hífað verður næst á dollunni, maður hrykki ekki langt þó að það hefði ólukkast í kássu.
Ég sé annað í stöðunni en að við verðum að fá Gospellkórinn Páfann og hjörðina úr vatíkaninu með einn túr í sumar til að reina að koma þessari ólukku fyrir kattarnef, ekki þyrfti nú að ýta Páfanum í hjólastólnum hér um borð, hann myndi líklega renna áreynslulaust um á veltunni og ætti að geta farið um allt skip hjálparlaust ,) það yrði sennilegast erfiðast að stoppa kallinn.
Svo að við snúum okkur að því sem öllu máli skiptir hjá okkur, eða veiðinni, þá virðist sem að einhver dauðahrygla hafi lagst yfir hattinn þegar við komum út, hvar sem drepið er niður trolli þessa síðustu daga þá er veiðin ekki svipur hjá sjón miðað við það sem á undan er gengið. Við verðum að vona að þetta sé einhver faraldur sem gengur yfir með batnandi tíð. Annars eru ekki neinar blikur á lofti með að veðrið skáni og samkvæmt veðurkortinu þá verður vestan suðvestan bræluskítur áfram næstu 48klst.
Læt þetta verða lokaorðin í dag.
Algóði himnaföður, veittu öllum þeim er þetta lesa blessun og hugarró og gefðu fiðraða starfsliði þínu leyfi lágflugs yfir þeim sem minna mega sín í baráttu lífsins, ekki sakaði ef þeir sáldruðu svolitlu af hamingju og hlýju yfir þá sem ekki hafa séð ljósið og dvelja langtímum í myrkri hugans.
<°((()>< Hörður ><()))°>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi