19. Nov 2003

..::Njet Bush Njet::..


Við náum ágætlega orðið útvarpinu svo að nú er hægt að ræða heimsmálin eftir hádegisfréttirnar, við félagarnir vorum allir hjartanlega sammála Livingstone um að Bandaríkjaforseti væri helsta ógn við heimsfriðinn þessa stundina og ég geri ráð fyrir að ansi margir séu á þeirri skoðun.

Þær ganga frekar rólega veiðarnar hjá útflöggunarflotanum á Flæmska Hattinum þessa dagana og erum við þar engin undantekning frá því ;(
En þetta er sjarminn við veiðar það er aldrei hægt að ganga að neinu vísu ;(, við getum samt ekki annað en lifað í voninni um að þetta fari að skána.
Þetta er ekki allt bölvað t.d er veðrið skaplegt, og ekki sveltum við eins og svöngu börnin í Afríku sem maður fékk svo oft að heyra um þegar maður vildi ekki borða matinn sinn sem barn.

Það eru nokkrir nýir kallar með okkur núna og sé ég ekki annað en að þeir komi ansi vel til enda er þetta yfirleitt sómafólk og duglegt til vinnu.
Auðvitað eru til drulluháleistar hjá þessum þjóðum, en drulluháleista höfum við Íslendingar líka, það vill oft gleymast þegar mörlandinn missir sig í að lýsa eigin ágæti að við eigum fullmikið af drulluháleistum.....

Þótt það sé lítill vindur í dag þá er hér haugasjór eins og vill nú einkenna þenna stað á jarðkúlunni, það er nánast alltaf þung alda og hann er fljótur að ná upp miklum sjó hérna í úthafinu.
Þetta gerir það að verkum að það vilja hnykkjast í sundur keðjur og tóg þegar verið er að bisa með þetta dót í rassgatinu.
Áðan þegar við vorum að hífa belginn inn þá kvein í sundur tóg sem við notum til að hífa belginn inn (þetta tóg gengur undir nafninu rússi).
Ég varð nú að setja þessa rússa skýringu inn, mér fannst það hljóma þannig að það mætti misskilja ef ég hefði orðað þetta á sjómannamáli, þá hefði þetta hljómað svona: “helvítis rússinn slitnaði í klofinu þegar við vorum að hífa belginn inn!”.
En það varð engin fyrir klofinu á rússanum þegar það spýttist inn og voru strákarnir nokkuð fljótir að redda þessu svo hægt var að kasta aftur.
Það er víst ekkert í stöðunni annað en að draga og draga og vona að Guð og lukkan fylgi okkur við veiðarnar. Vonandi slítum við ekki fleiri RÚSSAKLOF! ;).

Látum þetta duga í bili.

Gangið spakliga um stræti lífsins og munið eftir þeim sem minna mega sín.
Það eru allt of margir sem eingöngu huga um sína eigin hagsmuni og böðlast áfram í gegn um lífið með frekju og yfirgangi við aðra, yfirleitt þá sem síst eiga það skilið. Þannig vill sjálfsagt engin vera, en í öllu þessu lífsgæðakapphlaupi þá missir fólk stundum sjónar á því hvernig það er orðið í raun.

<°((()>< Hörður ><()))°>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi