..::Lasanja og grænfóðurssalat::..
Lasanja og grænfóðurssalat ala Blimma í kvöldmat alveg þrælmergjað, á eftir var svo boðið upp á nýuppáhelt kaffi og konfekt, hvað getur maður farið fram á meira í lífinu?

Eftir kvöldmatinn lagðist húsfrúin yfir lærdóminn en ég hringdi í pabba og spjallaði aðeins um þurrkaða þorskhausa hjalla og mótorhjól, en þegar kom að sjónvarpsþætti um Grænland á RUV felldum við samtalið niður og lögðumst yfir fróðleikinn :). Varð ég margfróðari um skíði og skíðabindingar eftir þennan þátt :).

Og þá var komið að því sem drengurinn er búin að vera suða um undanfarna daga, þ.e.a.s saga út úr spónaplötu rafmagnsgítara og bassa (eftirlíkingu) þeir félagar voru búnir að teikna þetta upp svo að það var létt verk og löðurmannslegt að skera þetta út með stingsöginni, í staðin varð ég vinsælasti pabbinn í hverfinu um stundarsakir hehe.
Það er búið að ræða mikið um bassa og hljómsveitir undanfarið og eru þeir félagarnir helteknir af þeirri hugmynd að stofna hljómsveit.
Þeir eru búnir að skipa niður í stöður í hljómsveitinni Einar Már Bassa, Karl Guðmundson Trommur, Sigurður Haukur gítar, Jón Arnar gítar. Eina óleysta vandamálið er að engin þeirra á hljóðfæri eða kann nokkuð með slíkt verkfæri að fara.
En baráttuhugurinn er mikill og það ku víst vera létt verk að læra á hljóðfæri að sögn drengjanna. Hvað sem því líður þá rifjaðist upp sá tími þegar ég öslaði út í þá vitleysu að kaupa mér kassagítar og þennan líka fína kassa undir gítarinn, þá ætlaði maður að leggja undir sig heiminn með gítarspili og söng, það gleymdist bara í óðagotinu að ég var vitalaglaus og taktlaus ofan á allt annað, enda endaði þetta líka með því að gítarinn og gítarkassinn rykféllu ónotaðir þangað til ég hafði þroska til að játa mig sigraðan í heimi tónlistarinnar.
Aldrei lærði ég eitt einasta grip eða gat stillt þennan grip minn, og á endanum seldi ég Magga í Sjólist þennan gítar. Mig minnir að Maggi hafi náð að temja þennan gítar og gott ef hann var ekki farin að gaula eitthvað með strengjaglamrinu, það er eins og það dúkki upp í huga mér að hafa heyrt hann spila og syngja eftir ball á bragganum heima á Eskifirði fyrir langa löngu, en það er allt í þoku og gæti verið tóm vitleysa.
Og Maggi hafði útlitið fyrir frægðina, hann var ekkert ólíkur Mick Jagger eftir því sem mig best minnir :).

Jæja það er best að fara að koma sér í bólið.

Bið Guð og gæfuna að fylgja ykkur................................................

<º))))><.•´¯`•. Hörður .•´¯`•.><((((º>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi