..::Ræfilsdómur::..
Ég verð líklega að játa á mig að þetta blogg mitt hefur ekki verið merkilegt undanfarið :).
En hverjum er ekki hollt að sleppa sér í leti og ómennsku svona öðru hverju :).

Síðbúin ferðasaga......
Ég var víst búin að lofa einhverri ferðasögu af Rvíkurferðinni í síðustu viku, en þar sem langt er um liðið og heilabúið í mér ekki mikið fyrir að geima lítilsverðar upplýsingar þá er þetta svolítið sundurlaust í minningunni, ég ætla samt að reina að pára einhverja línur niður. Ég flaug suður á þriðjudeginum í hádeginu og byrjaði á því að fara um borð í dolluna, þar var fundað fram og aftur með eigendunum. Aðallega var verið að spá og spekúlera í hvað þyrfti að gera. Það hafa verið óprúttnir náungar á ferð í dollunni meðan hún lá ónotuð og var búið að stela hinum og þessum tækjum úr brúnni.
Ég verð nú að segja að þessir vesalingar hafa ekki vaðið í vitinu því sumt af þeim búnaði sem fjarlægður var er einskinsnýtur fyrir krimmana, sá búnaður er séruppsettur fyrir hvert skip og gengur ekki yfir í það næsta. En hvað um það, þessi mál þurfti að fara yfir og skoða vel til að hægt væri að móta einhverja stefnu um framtíðina.
Um þriðjudagskvöldið kom ég mér svo fyrir um borð og svaf ágætlega fyrstu nóttina.
Á miðvikudeginum var svo áframhaldandi framhald á spekúleringum, en seinnipartinn brunaði ég svo yfir í Garð og borðaði kjöt í karrý með Pabba og Mömmu, ég stoppaði fram eftir kvöldi hjá þeim en brunaði svo í bæinn aftur.
Fimmtudaginn tókum við enn og aftur púlsinn á stöðunni og nú var smátt og smátt að myndast reglulegri mynd á pakkann. Ég skrapp svo aðeins á gula kassabílum upp á skrifstofu og þaðan upp í JHM sport þar sem ég verslaði aðeins í hjólið, svo var brunað um borð. Þar var Beggi vélstjóri orðin kaldsveittur að bíða eftir bílnum enda átti hann víst að vera komin yfir i Kópavog fyrir hálftíma, en hafði ekki haft vit á að fá símanúmerið mitt og því var ég grunlaus um þetta.
Ég fór upp í klefa og lét renna í bað (þetta er fyrsta dolla sem ég hef komið í þar sem er baðkar) það var dillandi gott að leggjast í sjóðheitt bað og láta líða úr sér.
Eftir baðið fór ég niður í rússasúpuna, þeir búa um borð þrír Litháar og virðast lifa á einhverju súpugutli sem þeir útbúa. Þennan tíma sem ég var um borð var bara súpa og brauð á boðstólnum. Jæja eitthvað varð að éta og þetta var ekki bragðvont en en en! Ok segi ekki meira. Þegar súpan var komin niður rölti ég út í rigninguna og stoppaði ekki fyrr en uppí Stangarholti hjá Gunna, þar stoppaði ég drjúga stund áður en Gunni skutlaði mér um borð aftur. Að vísu hafði ég nú ætlað að kíkja aðeins á systur mína en þar sem ég var bíllaus verður það að bíða betri tíma.
Föstudagurinn fór svo fyrir lítið, ég átti flug klukkan 14:30 og náði að særa Hannes í að keyra mig upp á völl, það voru allir boðnir og búnir að keyra mig en Hannes lá best við höggi. Og þannig endaði Reykjavíkurförin...............

Þetta verður að duga í bili, kannski pára ég eitthvað í kvöld hver veit :)....

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi