En víkjum þá að þessum vandræðum mínum: Þannig var að Mamma og Pabbi fóru með okkur systkinin út á Sellátra til að taka upp kartöflur með heimilisfólkinu þar, kartöflugarðurinn var aðeins ofan við bæinn og meðan allir voru að bisa í garðinum vafraði ég í burt í eina af mínum rannsóknarferðum, á bænum var þetta fína fjós og við fjósið var þessi fína skítagryfja sem tók við skítnum úr beljunum.
Eitthvað virðist hafa fallið lítið til af þessum fína húsdýraáburði því það var komin fín þurr skel ofan á skítinn í þrónni, þetta var eins og ís nema þarna var með öllu frostlaust og alveg dillandi veður að því að mig minnir.
Ég þurfti náttúrulega að prufa hvort þetta héldi mér og viti menn þetta hélt!, þar sem þessi skítaskán hélt mér á floti var mér ekkert að vanbúnaði að leggja upp í göngutúr í þrónni, þetta hefur sjálfsagt verið eitthvað í líkingu við það þegar Jesú gekk á vatninu nema, hann hafði sig í land.
Þetta rannsóknarrölt mitt á næfurþunnri skítaskáninni gat náttúrulega ekki endað nema á einn veg, það brast undan mér skánin og ég byrjaði að sökkva í skítinn.
Nú hefði verið tilvalið að segja SHIT! En þar sem að ég var bara smápúki sem ekki kunni að synda eða að tala Ensku þá var fátt annað í stöðunni en að orga eins og stungin grís.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi